Eru loftsteinar stærsta áskorun mannkyns?

Á ferð sinni um geiminn síðastliðin 4.500.000.000 ár hefur jörðin ítrekað og endurtekið þurft að þola árekstra við smástirni af ýmiss konar stærð og gerð. Afleiðingarnar hafa verið allt frá lítilli gusu á yfirborði úthafs til gjöreyðileggingar heilu tegundanna.

Hvenær næsta smástirni skellur á jörðinni, það veit enginn. Keppst er þó að því að spá fyrir um hvenær það verður og um leið koma í veg fyrir áreksturinn.

„Fyrr eða síðar þá munum við lenda í... litlum eða stórum árekstri,“ segir Rolf Densing, sem fer fyrir Evrópsku geimverkefnamiðstöðinni (ESOC) í Darmstadt í Þýskalandi, í samtali við fréttastofu AFP.

Það þurfi þó ekki endilega að gerast á tíma okkar sem nú lifum, segir hann, „en hættan á því að jörðin muni einn daginn verða fyrir gjöreyðandi árekstri er mjög mikil,“ segir hann.

Enn um sinn er lítið sem við getum gert til að verjast þeim óhugnanlega möguleika.

Fyrsta tilraunin sem stefnir að því að efla varnir jarðar í þeim efnum er á vegum Evrópsku geimferðastofnunarinnar (ESA) og felur það í sér að fljúga geimfari inn í smá­st­irni til að hrinda því af braut sinni. Mark­miðið hennar er að beina 160 metra breiðum hnetti á aðra braut, sem um leið myndi marka fyrsta skiptið sem mann­kynið hef­ur skipt sér með slík­um hætti af öðrum fyr­ir­bær­um sól­kerf­is­ins.

Tölvuteiknuð mynd af árekstri geimfarsins við smástirnið.
Tölvuteiknuð mynd af árekstri geimfarsins við smástirnið. AFP

Kjarnorkueldflaugar og leysigeislar

Mikið bak­slag kom þó í áætl­un­ina í des­em­ber síðastliðnum, þegar ráðherr­ar Evr­ópu­landa komu sam­an á fundi um fjár­mál stofn­un­ar­inn­ar. Var þar hafnað að fjár­magna verk­efnið. ESA hafði þá sóst eft­ir 250 millj­ón­um evra, eða sem jafn­gild­ir rúm­um 31 millj­arði ís­lenskra króna.

„Við erum ekki reiðubúin til að verja okkur,“ segir Densing. „Við höfum enga virka varnarmöguleika fyrir reikistjörnuna.“

Það sem hingað til hefur aðeins átt heima í vísindaskáldsögum og misgóðum Hollywood-sumarsmellum er nú innan þess ramma sem vísindamenn horfa til. Þannig kemur til greina að beita kjarnorkueldflaug gegn aðvífandi smástirni, beina á það leysigeislum, skjóta á loft dráttarflaug til að draga það á brott eða þá fljúga inn í það og þannig breyta braut þess.

Áður en gripið verður til þessara aðgerða þurfum við þó að geta komið auga á ógnina.

Stjarneðlisfræðingar sem fylgjast með himingeimnum flokka smástirnin eftir stærð, allt frá nokkrum millimetrum og upp í tíu kílómetra að þvermáli - en svo stór var loftsteinninn sem olli því að risaeðlurnar dóu út fyrir um 65 milljónum ára.

Steinar af minnstu gerðinni fljúga daglega inn í andrúmsloft jarðar, þar sem þeir brenna og leysast upp í stjörnuhrapi. Þeir stærstu lenda á jörðinni um það bil einu sinni á hverjum 100 milljón árum, og næsti árekstur gæti auðveldlega haft í för með sér endalok siðmenningarinnar.

En hvenær myndi það gerast?

Loftsteinninn yfir Chelyabinsk.
Loftsteinninn yfir Chelyabinsk.

80 milljónir trjáa felldar

Fram til þessa hafa sérfræðingar náð að gera lista yfir rúmlega 90% þeirra smástirna sem eru á stærð við steininn sem gerði út um risaeðlurnar, og eiga leið framhjá jörðinni. Er það mat sérfræðinganna að ekkert þeirra geti skollið á jörðinni í náinni framtíð.

Meiri áhyggjum valda þær milljónir smástirna sem eru í kringum 15 til 140 metra að þvermáli. Einn slíkur steinn, aðeins um 40 metra breiður, olli stærsta árekstrinum sem vitað er til í nútímasögunni þegar hann sprakk yfir Tunguska í Síberíu þann 30. júní árið 1908, fyrir réttum 109 árum.

Sprengingin felldi í kringum 80 milljónir trjáa á 2.000 ferkílómetra svæði, sem er víðfeðmara en flatarmál alls höfuðborgarsvæðisins.

Atburðir á borð við þann eiga sér stað að meðaltali á 300 ára fresti.

„Ímyndaðu þér hvað myndi gerast ef þannig smástirni myndi falla til jarðar á mjög þéttbýlu svæði eins og... í París eða í Þýskalandi, ég meina, það væru stórkostlegar hamfarir,“ segir Nicolas Bobrinsky verkefnisstjóri hjá Evrópsku geimferðastofnuninni. Stýrir hann þar verkefni sem fylgist með smástirnum í nágrenni við jörðina.

Eða að minnsta kosti þeim sem vitað er af.

Loftsteinninn Vesta á ferð um geiminn.
Loftsteinninn Vesta á ferð um geiminn. Mynd/NASA

140 metra þröskuldurinn

Atvikið í borginni Chelyabinsk árið 2013 kom til dæmis öllum í opna skjöldu. Um tuttugu metra breiður loftsteinn sprakk þá yfir miðju Rússlandi með krafti á við 27 Hiroshima-sprengjur.

Höggbylgjan sem fylgdi í kjölfarið mölbraut rúður í nærri fimm þúsund byggingum og fleiri en 1.200 manns slösuðust.

„Núna þegar við höfum uppgötvað flest smástirnin sem eru í kringum kílómeter að stærð eða stærri, þá er markmiðið að finna þau sem eru allt að 140 metrar að stærð,“ segir Patrick Michel, stjarneðlisfræðingur við frönsku rannsóknarstofnunina CNRS.

„Það er þröskuldurinn - ef steinn af þeirri stærðargráðu skellur á jörðinni - þá eru heilu landsvæðin eða heimsálfurnar undir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert