Flöskuskeyti milli stjarna

Voyager könnunarförin eru 40 ára.
Voyager könnunarförin eru 40 ára. AFP

Fjörutíu ár eru liðin frá því að Voyager-geimförunum tveimur var skotið á loft með markmiðið að rannsaka ystu plánetur sólkerfisins.

Voyager 1 og 2 eru mannlausar könnunarflaugar, búnar rannsóknartækjum til að safna upplýsingum um sólkerfið, flaugarnar áttu upphaflega að vera hluti af Mariner-verkefninu sem rannsakaði Merkúr, Venus og Mars, en vegna mikilla framfara í hönnun og tækni var ákveðið að geimförin tvö fengju sitt eigið nafn.

Förunum var skotið upp með 16 daga millibili fá Cape Canaveral í Flórída, Voyager 2 var skotið á loft 20. ágúst 1977 og stefnan var sett á ystu tvær pláneturnar, Úranus og Neptúnus, með stuttri viðkomu hjá Júpíter og Satúrnusi, en Voyager 1, sem skotið var á loft þann 5. september 1977, var eingöngu beint að Júpíter og Satúrnusi.

Sögulegar uppgötvanir

Voyager förin uppgötvuðu gríðarlega eldvirkni á tunglinu Íó við Júpíter, en það var í fyrsta skipti sem virk eldfjöll höfðu fundist á öðrum hnöttum en Jörðinni. Þegar förin ferðuðust framhjá Satúrnusi uppgötvuðu þau þrjú ný tungl, Atlas, Prometheus og Pandóru auk þess að gögn sem Voyager 1 safnaði frá tunglinu Títan sýndu fram á að tunglið hefði þykkt, köfnunarefna-ríkt andrúmsloft rétt eins og Jörðin. Þegar rannsókn faranna á Satúrnusi lauk hélt Voyager 2 áfram til að rannsaka Úranus og Neptúnus, en Voyager 1 tók stefnuna að endimörkum sólkerfisins.

Voyager 2 er fyrsta og eina geimfarið sem flogið hefur framhjá Úranusi og Neptúnusi og kemur meirihluti af vitneskju okkar um ísrisana tvo úr gögnum frá því. Í janúar 1986 kemst Voyager 2 í kynni við Úranus og uppgötvar 11 ný tungl, auk þess sem mælingar leiddu í ljós að segulsviði plánetunnar hallar, svo pólar segulsviðsins eru nær miðbaug heldur en snúningspól, ólíkt Jörðinni þar sem snúningspóll og póll segulsviðs eru nánast samstilltir.

Neptúnus var síðasti viðkomustaður Voyager 2, en þar náði farið myndum af gríðarmiklum stormi sem geisar á yfirborði plánetunnar, og af hrjóstrugu yfirborði tunglsins Tríton, en það urðu síðustu myndir Voyager 2 geimfarsins, því eftir rannsóknir á Neptúnusi var slökkt á myndavélum farsins til að spara orku.

Ljósmynd af Satúrnusi tekin úr Voyager könnunarfarinu.
Ljósmynd af Satúrnusi tekin úr Voyager könnunarfarinu.

Föli blái punkturinn

Þegar Voyager 1 var komið í um sex milljarða kílómetra fjarlægð frá jörðu var myndavélum þess snúið til baka og mynd var tekin af Jörðinni áður en slökkt var á myndavélum farsins. Á myndinni má sjá Jörðina sem örlítinn blett, umkringdan daufu sólarljósi, en ljósmyndin veitti stjarneðlisfræðingnum og rithöfundinum Carl Sagan innblástur til að hugsa um hversu einstök og brothætt plánetan okkar er, en hann skrifaði bókina Pale Blue Dot: A Vision of the Human Future in Space tileinkaða ljósmyndinni. Eftir að myndin var send til Jarðar var slökkt á myndavélum Voyager 1.

Gyllta platan

Voyager 1 er nú fjarlægasti manngerði hlutur frá jörðu, en farið er í rúmlega 21 milljarðs kílómetra fjarlægð frá jörðu og fjarlægist á um 17 kílómetra hraða á sekúndu miðað við sólina. Um borð eru þó ekki einungis mælitæki og myndavélar, heldur var gullhúðaðri koparplötu komið fyrir á bæði Voyager 1 og 2, sem inniheldur tónlist og myndir sem draga eiga upp mynd af lífi okkar og menningu hér á jörðu, fyrir hvern sem kynni að rekast á förin í framtíðinni. Það var stjarneðlisfræðingurinn Carl Sagan sem fór fyrir nefnd sem ákvað innihald platnanna, en á meðal efnis eru 115 ljósmyndir, tónlist á borð við Mozart, Beethoven, Chuck Berry, Blind Willie Johnson, aserska þjóðlagatónlist og indverskan slítarleik, hljóð frá börnum og fuglum og bílum ásamt fleiru, bréf frá Jimmy Carter Bandaríkjaforseta og kveðjur á 55 mismunandi tungumálum. „Geimförin munu finnast og plöturnar verða spilaðar, aðeins ef það er háþróuð geimferðamenning í geimnum á milli stjarna. En sending þessa flöskuskeytis út í alheimshafið segir eitthvað mjög vongott um lífið á þessari plánetu,“ sagði Carl Sagan um verkefnið.

Voyager 1 og 2 munu halda áfram að rannsaka víðáttur sólkerfisins þangað til árið 2025, en þá verður slökkt á búnaði faranna og þau munu hverfa inn á milli stjarnanna.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert