Rannsókn á kerfishruninu hafin

Þúsundir viðskiptavina 1984 urðu fyrir áhrifum vegna kerfishrunsins. Vefsíður eru …
Þúsundir viðskiptavina 1984 urðu fyrir áhrifum vegna kerfishrunsins. Vefsíður eru hins vegar nú farnar að koma upp á nýjan leik og tölvupóstar eru teknir að berast. mbl.is/Skjáskot

„Við vorum hræddir um að fólk yrði reitt eða gramt af því að það eru oft miklir hagsmunir í húfi, en við höfum hins vegar bara mætt endalausum kærleik og manngæsku,“ segir Mörður Ing­ólfs­son, fram­kvæmda­stjóri 1984 ehf.

Fyrirtækið varð fyrir algjöru kerfishruni í gær og lýsti Mörður því í samtali við mbl.is fyrr í dag hvernig starfsmenn hefðu setið á fundi með helstu sér­fræðing­um lands­ins í þess­um mál­um og horft bara á vél­arn­ar deyja.

Bilunin sem tengdist gagnageymslum fyrirtækisins hafði áhrif á alla viðskiptavini 1984, sem eru nokkur þúsund talsins.

Ná meira magni gagna en áður var talið

Starfs­menn hafa eftir þetta unnið sam­kvæmt neyðaráætl­un, sem felst í því að setja tölvu­póstþjón­ustu og vefsíður upp á öðrum hýs­ing­arstað upp úr af­rit­um.

Mörður segir vefsíður nú vera farnar að koma upp aftur og tölvupóstar séu teknir að berast. Þá horfi einnig bjartar við varðandi svonefndar VPS-vélar (virtual personal server), sem fagmenn nota, en útlit var fyrir að eitthvað af þeim gögnum kynni að tapast endanlega í kerfishruninu.  

„Þessum snillingum sem vinna hér með mér hefur tekist að þróa nýstárlega aðferð við að ná gögnum upp úr þessum VPS-vélum, þannig að við munum ná miklu meiri hluta þeirra gagna en við héldum áður og það eru mjög góðar fréttir,“ segir Mörður. „Við getum ekki lofað að gögn á öllum vélum finnist, en við getum lofað umtalsvert meiri líkum en í dag.“

Rannsókn hafin á fullu

Enn er ekki vitað hvað olli kerfishruninu, né heldur hvort vandinn sé tengdur vél- eða hugbúnaði. „Sú rannsókn er þó hafin á fullu og Nýherji hjálpar okkur með hana,“ segir Mörður og kveður Nýherja vera liðlega í þeirri vinnu. „Við getum ekki einbeitt okkur að þeirri rannsókn á meðan að við erum enn með þjónustu viðskiptavina okkar niðri og á meðan hefur Nýherji tekið þann bolta og er að rannsaka þetta.“

Hann segir yfirleitt takast að komast að rótum vandans, en það gerist þó ekki alltaf. „Það kemur væntanlega í ljós bráðum.“

Það sé engu að síður nauðsynlegt að hans mati að fá svör við því hvað gerst hafi. „Ekki bara fyrir okkur, heldur fyrir alla þá sem eru að starfrækja búnað af þessu tagi. Það er gríðarlega brýnt að mínu viti,“ segir Mörður.

Starfsmenn 1984 eru búnir að vera á fullu að koma þjónustu við viðskiptavini fyrirtækisins upp aftur og segir hann þá hafa verið einstaklega þolinmóða. „Okkar viðskiptavinir eru bara stórkostlegir og ég verð eiginlega bara klökkur vegna þess hvernig framkoma þeirra í okkar garð hefur verið. Við vorum hræddir við að fólk yrði reitt og yrði gramt af því að þetta eru oft mikli hagsmunir í húfi, en við höfum hins vegar bara mætt endalausum kærleika og manngæsku. Þetta er alveg ótrúlegt.“

Það stefnir í aðra svefnlausa nótt hjá Merði og samstarfsmönnum. „Það verður lítið sofið á þessum vinnustað fyrr en að allt er komið upp,“ segir hann og kveðst vonast til að það verði í síðasta lagi um helgina.

Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri 1984 ehf.
Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri 1984 ehf.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert