Hyggst sanna að jörðin sé flöt

Mike Hughes við eldflaugina sína. Hann hefur gefið köttunum sínum …
Mike Hughes við eldflaugina sína. Hann hefur gefið köttunum sínum vel, til öryggis.

Atvinnubílstjóri nokkur, sjálfmenntaður vísindamaður í Kaliforníu í Bandaríkjunum, hefur í hyggju að skjóta sér í loft upp í heimasmíðaðri eldflaug. Markmiðið er að afsanna að jörðin sé hnöttótt.

Sky news greinir fá þessu. Maðurinn heitir Mike Hughes og kallar sig hikstalaust Mad Mike. Hann segist ekki trúa á vísindi. Mad Mike trúir því statt og stöðugt að jörðin sé flöt og hefur, í þeirri viðleitni að sanna mál sitt, varið röskum tveimur milljónum króna í eldflaugasmíði.

Mad Mike, sem svo sannarlega virðist standa undir nafni, segir að enginn hafi áður hannað, smíðað og skotið sér til himins í eldflaug. Það má líklega til sanns vegar færa.

Hann áformar að skjóta sér á loft á laugardag. Hann muni ferðast á um 800 kílómetra hraða á klukkustund þar til hann verði kominn í um það bil 1,6 kílómetra hæð yfir jörðu. „Þetta er mjög ógnvekjandi en ekkert okkar mun lifa þessa jarðvist af,“ er haft eftir Mad Mike. Hann segist líta á sjálfan sig sem gangandi raunveruleikaþátt.

Uppátæki mannsins er að stærstum hluta kostað af hópi sem kallar sig Research Flat Earth. Sá hópur trúir líka að jörðin sé flöt, merkilegt nokk.

Herra Hughes bindur vonir við að hann muni geta barið jörðina augum úr loftfarinu – og komist þá að hinu sanna. „Ég trúi ekki á vísindi,“ segir hann. Hann viðurkennir þó að styðjast við viðurkennda loftaflfræði þegar kemur að smíði sinni en tekur fram að það séu ekki vísindi sem þar liggi að baki – heldur reikniformúla. „Það er enginn munur á vísindum og vísindaskáldskap,“ segir hann.

Mad Mike segist binda vonir við að geta einn daginn smíðað geimflaug, svo hann geti séð jörðina úr meiri fjarlægð. Í því felst að hann gerir ráð fyrir að lifa ferðalagið á laugardaginn af. Hann segist reyndar ætla að skilja eftir nægan mat fyrir kettina sína fjóra, ef ske kynni að eitthvað færi ekki eins og til er stofnað.

Sky News segir að hægt verði að fylgjast með tilraun Mad Mike á netinu, en greiða þurfi fyrir aðgang. Þegar tiltekinni hæð verði náð muni hann skjóta sér úr flauginni, búinn tveimur fallhlífum.

Þegar hann hefur náð takmarki sínu hefur Mad Mike í hyggju að bjóða sig fram til embættis ríkisstjóra Kaliforníu.

mbl.is

Bloggað um fréttina