Rífast um ábyrgð á „plasteyjunni“

Ruslið flýtur um við paradísareyju í Karíbahafinu.
Ruslið flýtur um við paradísareyju í Karíbahafinu. Ljósmynd/Caroline Power

Stjórnvöld í Hondúras kenna Gvatemala um að hafa valdið umhverfislegu stórslysi eftir að myndir voru birtar af gríðarlegu magni af plasti fljótandi í sjónum umhverfis eyju í Karíbahafi. 

Leonardo Serrano, borgarstjóri bæjarins Omoa í Hondúras, segir að yfirvöld í borgum og bæjum í Gvatemala hendi rusli sínu í á sem renni svo til sjávar og myndi hina fljótandi plasteyju sem svo hefur verið kölluð.

Sumt af þessu rusli rekur svo á fjörur við Omoa. Bæjarstjórinn segir augljóst að það megi rekja til nágrannaríkisins. „Þetta er algjört umhverfisslys,“ segir hann í samtali við Sky-sjónvarpsstöðina. 

Ljósmyndari Caroline Power birti myndir í október af gríðarlegu magni plasts við strendur eyjunnar Roatan þar sem hún býr. Á myndunum má sjá að plasteyjan samanstendur af plastflöskum og hnífapörum og diskum úr plasti og fleiru í þeim dúr. 

Power segir að Gvatemala eigi ekki eitt sökina. Ekki sé með fullu vitað hvaðan allt ruslið kemur. Hún segir þó líklegt að það fljóti til sjávar með ám sem renni bæði í gegnum Gvatemala og Hondúras. En það segi ekki alla söguna. Hluti þess komi annars staðar frá. „Sumt af þessu plasti hefur líklega verið á floti í sjónum í fleiri ár.“

Líffræðingurinn Mancy Calix segir í samtali við Sky að plastið brotni upp í fínar flögur með tímanum sem sökkvi til botns og eyðileggi kóralrifin sem þar er að finna. Hún segir að plast valdi dauða fiska og risaskjaldbaka, leifar af því hafi fundist í meltingarvegi dýranna. 

Umhverfisráðherra Gvatemala lofaði í vikunni að láta reisa sorpeyðingarstöð við Motagua-ánna sem rennur meðfram landamærunum að Hondúras. 

Sameinuðu þjóðirnar segja að í það minnsta 6,4 milljónir tonna af rusli endi í sjónum ár hvert. Um 70% þess fellur til botns, um 15% flýtur um og afganginn skolar upp á strendur landa jarðar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert