„Þetta er sorglegt, þetta er sjórinn okkar

Líbanskir kafarar stinga sér til botns með súrefniskútana á bakinu og með net í hendi. Þeir eru ekki að leita að fjársjóði á hafsbotni heldur rusli.

Hópurinn stendur fyrir hreinsunarstarfi í sjónum en almennir borgarar sem og fyrirtæki í landinu hafa mörg hver gefist upp á því að stjórnvöld í Líbanon taki til hendinni í úrgangsmálum og hafa því gripið til eigin aðgerða.

Kafararnir vinna m.a. undan ströndum bæjarins Tabarja sem er um 25 kílómetra norður af höfuðborginni Beirút. Það ber ávallt vel í veiði ef svo er hægt að komast að orði í þessu tilviki. Þegar þeir koma upp á yfirborðið eru þeir með net sín full af rusli, aðallega alls konar plastílátum undan mat.

„Það sem við sjáum þarna niðri særir hjarta mitt,“ segir Christian Nader, nítján ára háskólanemi, sem tekur þátt í hreinsunarstarfinu.

Átakið var skipulagt af samtökunum Live Love Beirut sem vill bæta ímynd landsins. Yfir 100 kafarar taka þátt í að hreinsa sjóinn á átta stöðum. Aðgerðirnar munu taka tvo daga. 

„Þetta er sorglegt. Þetta er sjórinn okkar. Það ættu að vera gerð átök í þessu, ríkið ætti að hjálpa okkur að hreinsa þetta upp,“ segir Nader. 

Líbönsk stjórnvöld hafa þó sýnt síðustu misseri að þau eiga erfitt með að taka á sorpvanda landsins. Verst var ástandið sumarið 2015 er sorp safnaðist upp á götum úti er stærsta ruslahaug landsins var lokað. Rætt hafði verið um að loka haugunum árum saman þar sem þeir voru löngu orðnir yfirfullir. Stjórnvöld höfðu heitið því að finna nýjan stað fyrir haugana en tókst ekki að gera það í tæka tíð.

Því gátu stofnanir sem safna sorpi hvergi komið því fyrir. Verst var ástandið í höfuðborginni.

Nú vara sérfræðingar við því að þetta gæti endurtekið sig þar sem stjórnvöld hafi ekki gert verkáætlun um hvernig eigi að farga rusli. 6.000 tonn af rusli falla til í Líbanon dag hvern. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert