Twitter biður NY Times afsökunar

AFP

Stjórnendur Twitter hafa beðist afsökunar á því að hafa lokað á Twitter-aðgang New York Times í sólarhring, eftir að þar var birt frétt um forsætisráðherra Kanada. BBC greinir frá þessu.

Aðgangurinn sem um ræðir er á vegum fréttamiðilsins og heitir @nytimesworld og hefur um 1,9 milljónir fylgjenda. Var lokað á aðganginn á laugardag í sólarhring, þar sem fréttin átti að hafa brotið í bága við reglur samfélagsmiðilsins um hatursorðræðu.

Í tístinu sem um ræðir stóð: „Eftir að hafa beðið eftir afsökunarbeiðni í áratug fá frumbyggjar á Nýfundnalandi og Labrador afsökunarbeiðni frá Justin Trudeau.“

Var þar vísað í orð forsætisráðherrans, sem baðst um helgina afsökunar á þeirri meðferð sem börn fengu á svæðinu í meira en eina öld. Um 150 þúsund börn frumbyggjanna voru tekin af foreldrum sínum og neydd til að fara í ríkisrekna skóla. 

Fjölmiðillinn hafði sama dag verið gagnrýndur fyrir að birta viðtal við bandarískan þjóðernissinna. Stjórnendur Twitter hafa hins vegar ekki sagt atvikin tvö tengjast.

Í yfirlýsingu frá samfélagsmiðlinum sagði að eftir að farið hafi verið yfir Twitter-aðgang New York Times hafi komið í ljós að mistök hafi verið gerð þegar honum var lokað. Tryggt verði að slík mistök verði ekki gerð aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert