Hvar eru konurnar?

Marie Curie ásamt dætrum sínum Eve og Irene. Marie Curie, …
Marie Curie ásamt dætrum sínum Eve og Irene. Marie Curie, eða Maria Sklodowska eins og hún hét upphaflega, fæddist í Varsjá í Póllandi árið 1867. Hún er einn frægasti eðlis- og efnafræðingur sögunnar. AFP

Tölfræði Nóbelsverðlaunahafa er ekki skemmtilestur fyrir konur því af hverjum 20 fær kona ein. Þrátt fyrir að staða kvenna sé aðeins að vænkast í þessu samhengi er það ekki að sjá á þeim sem munu taka við verðlaununum í ár – aðeins karlar – líkt og í fyrra.

Nóbelsverðlaunin í bókmenntum, eðlisfræði, efnafræði, læknisfræði og hagfræði eru afhent í Stokkhólmi en friðarverðlaunin eru afhent í Ósló. Verðlaunin eru alltaf afhent 10. desember á dánardægri Alfreðs Nóbels.

Af þeim 896 sem hafa hlotið heiðurinn frá því verðlaunin voru fyrst afhent árið 1901 eru konur fámennar eða 5% þeirra. Inni í þessari tölu eru ekki þau samtök sem hafa fengið verðlaunin.

Bara karlar – þessi mynd var tekin af handhöfum Nóbelsverðlauna …
Bara karlar – þessi mynd var tekin af handhöfum Nóbelsverðlauna í fyrra. Staðan er sú sama í ár – bara karlar. AFP

Ein kona hefur fengið Nóbelsverðlaun í hagfræði

Ef tölur um handhafa Nóbelsverðlauna í hagfræði eru skoðaðar finnst aðeins ein kona á listanum. Elinor Ostrom sem hlaut þau árið 2009 en verðlaunin voru fyrst afhent árið 1969. Staðan er litlu skárri í bókmenntum en friðarverðlaunin eru aftur á móti gjöfulli þegar kemur að framlagi kvenna. Alls hafa 14 konur fengið bókmenntaverðlaunin frá því þau voru fyrst afhent árið 1901. 

Marie Curie stendur upp úr

Tvær konur hafa fengið Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði: Marie Curie, sem er einn frægasti eðlis- og efnafræðingur sögunnar. Hún hlaut tvisvar sinnum Nóbelsverðlaun fyrir rannsóknir sínar á geislavirkni og frumefninu radíni. Rannsóknir hennar voru sannkallað brautryðjendastarf varðandi eiginleika frumefna og þróun og nýtingu kjarnorku.

Maria Goeppert-Mayer hlaut verðlaunin í eðlisfræði árið 1968 en hún deildi þeim með Hans D. Jensen á móti bandarísk-ungverska eðlisfræðingnum Eugene Wigner.

Fjórir konur hafa fengið Nóbelsverðlaunin í efnafræði en auk Marie Curie hlaut dóttir hennar, Irène Joliot-Curie, þau árið 1935 ásamt eiginmanni sínum. Ada E. Yonath fékk þau árið 2009 og Dorothy Crowfoot Hodgkin árið 1964.

Curie-fjölskyldan er einnig sú fjölskylda sem oftast hefur hlotið Nóbelsverðlaunin því Pierre Curie, eiginmaður Marie, deildi þeim með henni árið 1903 og Frédéric Joliot deildi þeim með eiginkonu sinni, Irène, árið 1935.

Alls hefur Nóbelsverðlaunum verið deilt til kvenna 49 sinnum frá 1901 til 2017 og þar sem Marie Curie er eina konan sem hefur hlotið þau í tvígang hafa 48 konur fengið Nóbelsverðlaunin frá upphafi.

Göran K. Hansson, sem fer með formennsku í konunglegu sænsku vísindaakademíunni, sem velur verðlaunahafa í efnafræði, eðlisfræði og hagfræði, viðurkennir að þetta hlutfall valdi miklum vonbrigðum. Hann segir að það sé ekki vegna karllægra viðhorfa meðal nefndarmanna sem staðan sé svona og bendir á að konur stýri fjórum af nefndunum sem velja Nóbelsverðlaunahafana. 

Franski veirufræðingurinn Françoise Barré-Sinoussi hlaut Nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 2008.
Franski veirufræðingurinn Françoise Barré-Sinoussi hlaut Nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 2008. AFP

Tilraunastofurnar læstar fyrir konum

Hann segir að helsta ástæðan sé sú að í vísindasamfélaginu sé konum alls ekki haldið á lofti og ein helsta skýringin á því sé sú að tilraunastofunum var einfaldlega skellt í lás ef kona bankaði á dyr í svo mörg ár.

Anne L'Huillier, sem situr í konunglegu vísindaakademíunni, og var í verðlaunanefndinni í eðlisfræði árið 2010, tekur undir með Hansson og segir að af þeim fáu konum sem tókst að komast inn á rannsóknarstofurnar hafi aðeins örfáar komist upp metorðastigann. Hún telur að staða kvenna sé þó eitthvað skárri í lifandi vísindum. 

Listi yfir handhafa Nóbelsverðlauna í læknisfræði sem eru veitt af Karolinska-stofnuninni er heldur meira upplífgandi fyrir konur þar sem 12 konur hafa fengið Nóbelsverðlaunin í læknisfræði eða 5,6% af 214 verðlaunahöfum.

En ef kynjagleraugun eru pússuð enn betur sést að allir þeir sem hafa fengið Nóbelsverðlaunin í hagfræði eru hvítir. „Ekki nóg með það við erum allir gamlir hvítir karlar og verkefnin hafa verið í gangi í 30 ár eða lengur,“ segir Richard Thaler, sem hlýtur verðlaunin í ár.

Ef við snúum okkur aftur að bókmenntunum er hlutfall kvenna 12,3%. Frá árinu 2007 hafa konur bætt í og síðustu 10 árin er hlutfall kvenna komið í 36%. 

Ritari nóbelsnefndarinnar í bókmenntum, Sara Danius.
Ritari nóbelsnefndarinnar í bókmenntum, Sara Danius. AFP

„Þetta mun breytast“

Sara Danius, sem stýrir úthlutunarnefndinni, segir að hlutirnir séu að þróast í rétta átt en það þýði samt ekki að ekki sé hægt að gera betur. „Þetta mun breytast,“ segir hún og bætir við að nefndirnar sem takist á við það erfiða verkefni að velja handhafa Nóbelsverðlauna láti tölfræði ekki skipta máli heldur aðeins gæði verkefna. 

Danius og aðrir í bókmennaverðlaunanefndinni hafa ekki farið varhluta af #metoo-byltingunni þar sem Frakki, sem er kvæntur konu sem tengist nefndinni mjög, er sakaður um að hafa áreitt 18 konur kynferðislega í grein sem birt var í síðasta mánuði í Dagens Nyheter.

Nefndin kom saman til fundar í kjölfarið og var ákveðið að slíta öll tengsl mannsins, sem rekur virtan menningarstað í Stokkhólmi ásamt eiginkonu sinni. Staðurinn hefur fengið styrki frá sænsku vísindaakademíunni en nú hefur verið lokað fyrir það auk þess sem hann var tekinn út af gestalistanum á afhendingu verðlaunanna um helgina.

Tawakkol Karman er handhafi friðarverðlauna Nóbels árið 2011. Hún flutti …
Tawakkol Karman er handhafi friðarverðlauna Nóbels árið 2011. Hún flutti erindi á alþjóðlegri ráðstefnu Höfða friðarseturs í haust. Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Af 104 handhöfum friðarverðlauna Nóbels eru 16 konur eða 15,4%. Þrátt fyrir að þetta sé hæsta hlutfall kvenna þegar kemur að flokkum Nóbelsverðlauna er enn langt í land að jafnrétti náist á þessu sviði. Af konunum 16 hafa 5 þeirra fengið verðlaunin á undanförnum 15 árum.

Árið 2011 hlutu þrjár konur verðlaunin fyrir starf sitt í þágu jafnréttis kynjanna. Þær eru forseti Líberíu, Ellen Johnson Sirleaf, og Leymah Gbowee sem einnig er frá Líberíu og Tawakkol Karman frá Jemen. 

Konur sem hafa fengið Nóbelsverðlaun

Hjónin Pierre og Marie Curie-Skolodowska á rannsóknarstofu sinni í París …
Hjónin Pierre og Marie Curie-Skolodowska á rannsóknarstofu sinni í París árið 1920. AFP

Hér fylgir umfjöllun Vísindavefjar Háskóla Íslands um eina merkustu vísindakonu sögunnar, Marie Curie:

Marie Curie er einn frægasti eðlis- og efnafræðingur sögunnar. Hún hlaut tvisar sinnum Nóbelsverðlaun fyrir rannsóknir sínar á geislavirkni og frumefninu radíni. Rannsóknir hennar voru sannkallað brautryðjendastarf varðandi eiginleika frumefna og þróun og nýtingu kjarnorku.

Marie Curie, eða Maria Sklodowska eins og hún hét upphaflega, fæddist í Varsjá í Póllandi árið 1867. Hún missti móður sína þegar hún var 11 ára gömul. Faðir hennar var kennari í eðlisfræði og stærðfræði og vöktu þessi fræði mikinn áhuga hjá stúlkunni. Faðir Marie hélt dætrum sínum að bókum enda þótti honum eðlilegt að stúlkur stunduðu nám jafnt við stráka. Þessi afstaða var um margt óvenjuleg fyrir þennan tíma því stúlkum var þá til dæmis meinaður aðgangur að háskólum í Póllandi.

Marie var góðum gáfum gædd og gat til dæmis talað fimm tungumál sem ung stúlka. Henni var margt fleira til lista lagt og gat leikið á píanó, dansað og saumað af mikilli list. Náttúruvísindi áttu þó hug hennar allan og æðsti draumur hennar var að geta stundað nám við Sorbonne-háskólann í París í Frakklandi. Fjölskylda hennar var þó ekki vel efnum búin svo að litlar líkur virtust á því að þessi draumur hennar gæti ræst. En Marie dó ekki ráðalaus og í stað þess að fara í háskólanám strax vann hún sem kennslukona hjá nokkrum fjölskyldum í Póllandi. Peningana sem hún vann sér inn sendi hún systur sinni sem lagði stund á læknisfræði í París. Þær systur höfðu gert með sér samkomulag um að styðja hvor aðra til náms. Marie borgaði fyrst nám systur sinnar en síðar borgaði systirin fyrir nám Marie.

Árið 1891 kom Maria Sklodowska loks til Parísar til þess að stunda nám við Sorbonne. Af 12.000 nemendum skólans voru einungis örfáar konur. Marie hellti sér út í námið og lifði mjög einföldu og fábreyttu lífi. Pierre Curie hitti hún árið 1894 og giftist honum árið eftir. Pierre var þegar orðinn frægur eðlis- og efnafræðingur. Þau áttu eftir að vinna mikið saman. Marie var ekki mikið fyrir íburð og segir sagan að hún hafi valið sér brúðarkjól gagngert með það fyrir augum að geta notað hann í rannsóknarstofunni seinna.

Á þessum tíma var vitað að til væru efni sem gáfu frá sér geislun en ekki var vitað af hverju. Marie Curie eyddi miklum tíma í að rannsaka hvort þetta fyrirbæri væri til í ólíkum frumefnum. Það var síðar nefnt geislavirkni (enska radioactivity). Pierre og Marie uppgötvuðu árið 1898 frumefnin radín og pólon, sem var skírt eftir heimalandi Marie. Þau sáu að þessi efni gáfu frá sér geisla og breyttust með tímanum í önnur efni. Uppgvötvun þeirra hafði byltingu í för með sér í vísindaheiminum því að talið hafði verið að frumefni væru óumbreytanleg. Vinna Marie fólst að miklu leyti í því að vinna radíum þannig að það yrði nógu hreint til þess að hægt væri að búa til úr því málm. Vinnan bar árangur og Marie lauk doktorsprófi árið 1903 við Sorbonne. Sama ár fengu Marie og Pierre ásamt samstarfsmanni sínum Henri Becquerel Nóbelsverðlaun í eðlisfræði fyrir rannsóknir á geislavirkni.

Marie og Pierre eignuðust tvær dætur, Iréne árið 1897 og Éve árið 1904. Tveimur árum eftir að yngri dóttirin fæddist lést Pierre af slysförum eftir að hestvagn ók á hann. Þetta var mikið áfall fyrir Marie. Eftir andlát hans eyddi hún nánast öllum sínum tíma við rannsóknir. Sama ár og Pierre dó fékk hún leyfi til þess að kenna við Sorbonne, fyrst kvenna.

Árið 1911 fékk hún aftur Nóbelsverðlaun en nú í efnafræði, fyrir rannsóknir sínar á því hvernig væri hægt að einangra radíum. Marie Curie hélt áfram að rannsaka geislavirkni og notkun geislavirkni í læknisfræði. Hún uppgötvaði til dæmis að geislar gætu læknað húðkrabbamein.

Marie Curie var fræg um heim allan og hélt hún fyrirlestra víða jafnframt því sem hún hélt áfram rannsóknum. En það var heilsuspillandi að vinna með geislavirkni og svo fór að Marie fór að finna fyrir mikilli þreytu, var oft með höfuðverk og hita. Marie lést árið 1934 úr hvítblæði sem hún fékk sennilega vegna geislavirkni frá frumefnum sem hún hafði unnið með. Eldri dóttir hennar, Iréne, hélt rannsóknum móður sinnar áfram ásamt eiginmanni sínum. Þau hlutu Nóbelsverðlaun árið 1935 fyrir uppgötvun sína á örvaðri geislavirkni (artificial radioactivity), segir á Vísindavef Háskóla Íslands.

mbl.is