Hvað varð um soltna ísbjörninn?

Ísbjörn reynir burðarþol vakar á Norðurheimsskautinu.
Ísbjörn reynir burðarþol vakar á Norðurheimsskautinu. AFP

Líffræðingar telja að samhliða minnkun heimskautaíssins á norðurslóðum muni fækkun eiga sér stað í ísbjarnarstofninum. Í dag er staðan sú að á hverju ári lengist það tímabil sem er án íss og snjós á heimskautasvæðum. Það vorar fyrr og haustar seinna.

Í dag telur stofninn um 26 þúsund dýr á heimsvísu. Í skýrslu sem kom út árið 2015 er fjallað um það mat vísindamanna að stofninn muni minnka um 30% fyrir árið 2050 með sama áframhaldi.Lesa meira

Skýringin er sú að ísbirnir reiða sig á ísinn til veiða á selum og öðrum sjávardýrum. Þegar ísinn bráðnar og birnirnir komast ekki út á hann gerir það þeim erfiðara fyrir að verða sér úti um fæðu. Ísbirnir geta verið nokkuð lengi án ætis svo lengi sem þeir hafa nóg af því þess á milli. „En þegar fastan verður of löng þá getur hún ýtt þeim út á brúnina,“ segir Elisabeth Kruger, yfirmaður Norðurskautsdeildar World Wildife Fund í samtali við New York Times.

Ísbjarnarstofninn hefur verið skilgreindur „í hættu“ frá árinu 2008. Eins og staðan er í dag er hann þó ekki í útrýmingarhættu sem er efsta stig áhættugreiningar á afkomu dýrastofna jarðar.

Líffræðingurinn og ljósmyndarinn Paul Nicklen birti nýverið mynd af sársoltnum ísbirni í Hellulandi (Baffin islands) á heimskautasvæðum Kanada. Nicklen er uppalinn á þessum slóðum og þekkir því vel til. Hann er heimsþekktur ljósmyndari hjá National Geographic.

Nicklen birti myndina nýverið á samfélagsmiðlum sem og myndband af birninum. Í texta sem hann lét fylgja sagði hann um að ræða birtingarmynd loftslagsbreytinga: Svona líta loftslagsbreytingar út, sagði Nicklen. Hins vegar er ekki hægt að staðfesta að björninn, sem var ungt karldýr, hafi verið svona á sig kominn vegna ætisþurrðar. Hann var þó á snjólausu landi, án sýnilegra meiðsla, og augljóslega þjáður af vöðvarýrnun. Ekki er hægt að staðfesta orsök þess að hann lést án krufningar og hefur því kenning Nicklen ekki verið staðfest.

Hann og National Geographic vildu hins vegar samt sem áður birta myndina og vekja athygli á þeim vanda sem steðjar að ísbjarnarstofninum. Haldi ísinn áfram að hopa munu þessi sömu örlög bíða fjölda bjarndýra, sagði Nicklen.

Myndbirtingin vakti vægast sagt hörð viðbrögð. Margir lýstu því hversu mikið þeir fyndu til með dýrinu en aðrir efuðust stórlega um að loftslagsbreytingar hefðu nokkuð með dauðastríð dýrsins að gera. Enn aðrir áttu ekki orð yfir því að Nicklen og aðrir í hans teymi, sem voru á svæðinu til að kortleggja áhrif loftslagsbreytinga fyrir samtökin Sea Legacy, hefðu getað horft upp á þetta án þess að aðhafast nokkuð. Spurði fólk ítrekað af hverju hópurinn hefði ekki gefið birninum að éta eða fellt hann.

National Geographic hefur tekið saman svör við nokkrum þeirra spurninga sem vöknuðu meðal lesenda í kjölfar myndbirtingarinnar:

Hvers vegna gat tökuliðið ekki hjálpað birninum?

Að horfa á soltinn ísbjörn að draga fæturna og reyna af veikum mætti að grafa í ruslinu getur verið erfitt. Jafnvel enn erfiðara var þó fyrir Paul Nicklen og Cristina Mittermeier, tvo líffræðinga og ljósmyndara, að horfa upp á þetta með eigin augum. „Sumir hafa gagnrýnt okkur fyrir að gera ekki meira til að hjálpa birninum en við vorum of langt í burtu frá mannabyggðum til að biðja nokkurn um hjálp,“ skrifaði Mittermeier sem svar við spurningu frá lesanda. „Að nálgat soltið rándýr, sérstaklega án þess að hafa vopn, hefði verið brjálæði.“

Hún segist því hafa gert það sem hún gat og kunni: „Ég notaði myndavélina mína til að tryggja að við gætum deilt þessum harmleik með umheiminum.“

Nicklen hefur einnig bent á að bannað sé með lögum að gefa ísbjörnum að éta á þessum slóðum.

Hvað segir myndbandið okkur um ástand bjarnarins?

Björninn er að svelta í hel. Hann er horaður og vöðvar hans rýrir. Það gefur vísbendingu um að hann hafi ekki komist í æti í langan tíma.

Hins vegar er ekki hægt, án krufningar, að staðfesta hvað olli þessu ástandi hans og hvort hann hafi þjáðst af einhverjum sjúkdómi. Dæmi eru um að sníkjudýr búi um sig í ísbjörnum en eins og aðrar bjarntegundir eru þeir ekki gjarnir á að smitast af sjúkdómum.

Nicklen segir að björninn hafi ekki virst meiddur. Hefði hann lent í átökum við annan björn hefðu sár hans verið sýnileg. „Þessi björn er augljóslega vannærður,“ segir Steven Amstrup, sérfræðingur hjá Polar Bear International. „Hann hefur öll einkenni sveltis.“

Er vitað hver örlög bjarnarins urðu?

Nicklen og Mittermeier tóku upp myndskeiðin og myndirnar í ágúst. Þau mynduðu á meðan þau gátu en þar sem vetur var að skella á gátu þau ekki dvalið lengur á þessum slóðum. Það er því ekki staðfest hver örlög bjarnarins urðu en Nicklen, sem hefur fylgst með ísbjörnum í fleiri ár, telur að hann hafi drepist innan tveggja til þriggja daga.

Þessi mynd er tekin við Wrangel-eyju við Rússland í september …
Þessi mynd er tekin við Wrangel-eyju við Rússland í september í ár. Þar mátti sjá tugi ísbjarna gæða sér á hvalshræi. Ástandið á ísbjarnarstofninum er talið gott á þessum slóðum. AFP

Hver er staðan á ísbjarnarstofninum?

Á heimsvísu steðjar ekki bráð hætta að ísbjarnarstofninum. Nicklen hefur sjálfur myndað ísbirni á heimskautasvæðum Rússlands og þar segir hann birnina svo feita að þeir eigi sumir hverjir erfitt með gang. Vísindamenn telja að hvergi í heiminum séu nú fleiri ísbirnir en einmitt á þessum slóðum en mjög erfitt hefur reynst að rannsaka afkomu stofnsins þar. Svæðið er umfangsmikið og fjármögnun rannsókna á þessu sviði er takmörkuð. Því er ekki hægt að fullyrða neitt með vissu. Hins vegar er ljóst að búsvæði ísbjarna eru í misjöfnu ásigkomulagi.

Erfiðustu aðstæðurnar eru á þeim stöðum þar sem ísinn kemur og fer eftir árstímum. Það er til að mynda tilfellið í Hellulandi, þar sem hinn soltni björn var myndaður. Þegar ísinn á þessum slóðum bráðnar yfir sumartímann nota birnirnir forða sem þeir hafa safnað yfir veturinn til að lifa af. „Þeir nota um kíló [af forða sínum] á dag á meðan þeir bíða eftir að ísinn komi aftur,“ segir Amstrup.

En hver er þá staðan á ísnum á heimskautasvæðunum?

Með hækkandi hitastigi á norðurslóðum bráðnar þessi árstíðabundni ís fyrr og myndast svo seinna hvert haust. Þetta þýðir að sá tími sem ísbirnir þurfa að stóla á vetrarforða sinn er alltaf að lengjast.Lesa meira

Vísindamenn eru flestir sammála um að ísinn hafi bráðnað hraðar en eðlilegt getur talist síðustu áratugi. Heimskautasvæðið í norðri er það landsvæði þar sem áhrif loftslagsbreytinga virðast hröðust og mest.

Hvaða áhrif hefur hækkandi hitastig á ísbirnina?

Ísbirnir eru meðal stærstu bjarndýra jarðar. Þeir þurfa mikið magn af fæðu til að lifa. Þeir lifa aðallega á selum, rostungum og hvölum og geta innbyrt tugi kílóa af kjöti í einni máltíð. Ólíkt öðrum bjarndýrum eru þeir kjötætur. Þeir þurfa kjöt til að lifa.

Selir geta verið lengi í sjónum í einu og eru snöggir á sundi. Því nota birnir ísinn til að fara út á og veiða þá.

Þorpsbúar á sumum svæðum norðurslóða segjast nú sjá fleiri birni í byggð en undanfarin ár. Það þarf ekki að vera vísbending um að stofninn fari stækkandi heldur getur þýtt að svengdin dregur þá að mannabústöðum.

„Engir líffræðingar eru að halda því fram að allir ísbirnir eigi í erfiðleikum um þessar mundir,“ segir Amstrup. „Ein þeir sem eru í vanda í augnablikinu gefa vísbendingu um það sem blasa mun við í framtíðinni.“

Greinin er byggð á fréttaskýringum New York Times og National Geographic.

mbl.is