Fundu draugaskip í Tálknafirði

Upphaflega var talið að um hverastrýtur væri að ræða.
Upphaflega var talið að um hverastrýtur væri að ræða. Ljósmynd: ÍSOR - Landhelgisgæslan

Við jarðfræðikortlagningu á hafsbotninum umhverfis landið, sem fyrirtækið ÍSOR stendur fyrir, rákust menn á svolítið athugavert í Tálknafirði. Töldu þeir að um svokallaðar hverastrýtur væri að ræða og var nýr jarðhitastaður því merktur inn á kortið.

Þóttu hverastrýturnar ansi mikilfenglegar og minna á skip á siglingu. Á daginn kom þó að ekki var allt sem sýndist. „Í framhaldinu leiddi það sem var svo skemmtilegt við strýturnar til þeirrar óskemmtilegu niðurstöðu að þetta var í raun skipsflak sem minnti á hverastrýtur en ekki hverastrýtur sem minntu á skipsflak,“ segir í frétt á heimasíðu fyrirtækisins.

Um var að ræða stálskipið Þrym BA-7 sem hafði legið lengi uppi í fjöru á hafnarsvæði Tálknafjarðar. Þaðan hvarf það svo á dularfullan hátt um miðja nótt í nóvember árið 1997 og sást aldrei framar. Málið var rannsakað sem sakamál á sínum tíma en var aldrei fyllilega upplýst.

„Þessi niðurstaða olli vonbrigðum því óneitanlega hefði verið skemmtilegra að finna hverastrýtur og jarðhita heldur en gamalt draugaskip.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert