Apple biðst afsökunar

Eigendur iPhone 6 og eldri tækja geta sumir fengið afslátt …
Eigendur iPhone 6 og eldri tækja geta sumir fengið afslátt á nýjum rafhlöðum. AFP

Apple hefur beðið viðskiptavini sína afsökunar á því að hafa hægt á stýrikerfum iPhone 6 og 7 snjallsíma og hefur heitið því að veita þeim afslátt af rafhlöðum í nokkrar tegundir tækjanna.

Afsökunarbeiðnin kemur í kjölfar gríðarlegrar óánægju iPhone-notenda og fjölda kærumála eftir fréttir um vandræði í tengslum við rafhlöðurnar sem vöktu grunsemdir um að fyrirtækið væri viljandi að ýta undir það að notendur eldri síma keyptu nýjar gerðir.

„Við vitum að sumum ykkar finnst að Apple hafi brugðist ykkur. Við biðjumst afsökunar,“ sagði í tilkynningu frá fyrirtækinu á vefsíðu þess.

„Við viljum alltaf að viðskiptavinir okkar geti notað iPhone-síma sína eins lengi og mögulegt er. Við erum stolt af því að Apple-vörur eru þekktar fyrir góða endingu sína og fyrir að halda verðmæti sínu lengur en tæki samkeppnisaðilanna.“

Apple segist því ætla að lækka verð á rafhlöðum í símana sem ekki eru lengur í ábyrgð. Munu rafhlöðurnar lækka úr 79 dollurum í 29 dollara fyrir alla þá sem eiga iPhone 6 eða eldri síma sem þurfa á nýrri rafhlöðu að halda. Tilboðið mun gilda allt næsta ár.

Þá ætlar fyrirtækið einnig að gefa út nýja uppfærslu á hugbúnaði svo að notendur geti séð ef rafhlaða er farin að hafa áhrif á afköst símans.

„Eins og alltaf eru starfsmenn okkar að finna leiðir til að gera upplifun notenda betri meðal annars með því að bæta hvernig við getum fylgst með afköstum og komið í veg fyrir óvæntar uppákomur er rafhlaðan eldist,“ segir í tilkynningu Apple.

Aðgerð til að jafna út orkutoppa

Gagnrýni á Apple blossaði upp í síðustu viku eftir að Apple viðurkenndi aðgerð sem hafði það að markmiði að jafna út toppa í eftirspurn eftir orku til að koma í veg fyrir að símar af gerðinni iPhone 6 slekktu á sér vegna vandkvæða í tengslum við rafhlöðuna. Á tæknisíðum á netinu hefur lengi gengið orðrómur um að Apple hægði viljandi  á hugbúnaði tækja til að ýta undir það að notendur keyptu nýjar gerðir þeirra. 

Í yfirlýsingu Apple segir að fyrirtækið myndi „aldrei nokkurn tímann“ gera neitt viljandi til að stytta líftíma vara sinna en viðurkenndi að rafhlöður séu ekki eilífar og að þær misstu eiginleika sína með aldrinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina