Geimfari taldi sig hafa lengst um 9 sm

Norishige Kanai flaug út í geim skömmu fyrir jól. Hann ...
Norishige Kanai flaug út í geim skömmu fyrir jól. Hann taldi sig hafa lengst um 9 sentimetra. AFP

Japanskur geimfari hefur beðist afsökunar á því að hafa haldið því fram á samfélagsmiðlum að hann hefði lengst um níu sentimetra síðan hann kom í alþjóðlegu geimstöðina, ISS, fyrir rúmum þremur vikum. Það hafi ekki verið rétt, heldur hafi hann gert mistök við fyrstu mælingar.

Þess í stað hefur geimfarinn, Norishige Kanai, greint frá því að hann hafi lengst um tvo sentimetra, en þekkt er að geimfarar lengist í ferðum sínum, þar sem hryggjarliðir þeirra færast í sundur í  þyngdarleysinu.

Algengt er að geimfarar lengist um 2-5 sentimetra í geimnum, en yfirlýsing Kanai um að hann hefði lengst um níu sentimetra vakti furðu á samfélagsmiðlum, að því er BBC greinir frá. 

„Góðan daginn allir. Ég hef stóra tilkynningu í dag. Við mældum líkama okkar eftir að við komum út í geim – og vá, vá, vá, ég hafði lengst um 9 sentimetra,“ sagði Kanai á Twitter-síðu sinni eftir að hann kom í geimstöðina.

Kanai sagði síðar að reyndur rússneskur yfirmaður sinn í geimstöðinni, Anton Shkaplerov, hefði strax lýst yfir efasemdum um mælingarnar. Þá hafi hann mælt sig aftur og mistökin komið í ljós. Þetta er fyrsta geimferð japanska geimfarans.

„Mér þykir afar leitt að hafa tíst svona falsfréttum,“ sagði geimfarinn við fylgjendur sína, en grínaðist síðan með það að hann væri í raun nokkuð feginn að hafa ekki lengst jafnmikið og hann hélt, enda hefði níu sentimetra lenging mögulega gert honum erfitt að passa í sæti Soyuz-geimskipsins, sem mun flytja hann aftur til jarðar.

Kanai lengdist um tvo sentimetra eftir að hann fór út ...
Kanai lengdist um tvo sentimetra eftir að hann fór út í geim, en ekki níu. AFP
mbl.is
Skrifstofuhúsnæði til leigu
Tvær 12 fm. skrifstofur til leigu í nágrenni við Hlemm. Geta leigst saman. Aðgan...
Hreinsa rennur
Hreinsa þakrennur, fyrir veturinn og tek að mér ýmis smærri verkefni. Uppl. í sí...