Hélt niðri í sér hnerra og reif háls

Svarta örin bendir á þann stað á milli barka og …
Svarta örin bendir á þann stað á milli barka og mjúkvefjar sem loftið ruddi sér leið út um. Skjáskot/BMJ.com

Það getur verið stórhættulegt að reyna að kæfa kröftugan hnerra með því að halda fyrir munn og nef. Breskur maður reif hálsinn á sér við slíkt athæfi. Slíkt getur gerst þegar loftþrýstingurinn sem fylgir hnerra finnur sér enga útgönguleið nema að rífa sig í gegnum mjúkvefi í öndunarvegi. Slíkt er sjaldgæft en læknar vara þó við hættunni sem af þessu getur stafað. Að kæfa hnerra getur einnig skaðað heyrn.

Fjallað er um mál hins 34 ára gamla Breta í nýjasta hefti British Medical Journal, BMJ. Þar kemur fram að maðurinn hafi fundið „smell“ í hálsinum er hann kæfði hnerrann kröftuga og hafi þegar í stað fundið sársauka og átt erfitt með að kyngja og tala. 

Læknar sem skoðuðu hann sáu bólgur og eymsli í hálsinum á honum. Á röntgenmynd kom í ljós að loft úr barkanum hafði fundið sér leið inn í mjúkvefi í hálsnum í gegnum rifu. Maðurinn varð að nærast í gegnum slöngu í viku svo að meiðslin í hálsinum fengju að jafna sig í friði. Hann lá á sjúkrahúsi allan þann tíma. Hann hefur nú náð sér að fullu.

„Að kæfa hnerra með því að loka fyrir nef og munn er hættulegt athæfi og ætti að forðast,“ segja læknar mannsins á sjúkrahúsinu í Leicester. Þeir bæta við að vissulega geti bakteríur borist með hnerrum en engu að síður sé betra að hnerra en halda hnerranum niðri. Best sé þó að hnerra í klút og gæta þess að þvo sé reglulega um hendurnar. 

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert