Sportbíll Musks stefnir á Mars

Kraftmesta geimflaug heims, Falcon Heavy sem er í eigu einkafyrirtækisins SpaceX, hóf jómfrúarferð sína í gær með sportbíl forstjórans Elons Musk, af gerðinni Tesla Roadster, innanborðs. Teslan er nú á sveimi í geimnum og er stefnan tekin á sporbaug um Mars. 

Mikil fagnaðarlæti brutust út stjórnstöðinni í Cape Canaveral í Flórída er 27 vélar flaugarinnar voru ræstar og hún hóf sig svo á loft á sama skotpalli og fyrsta flaug NASA til tunglsins gerði fyrir fjórum áratugum. 

„Þetta tókst eins vel og við gátum framast vonað,“ sagði Musk við blaðamenn eftir geimflaugarskotið. Hann sagði skotið það mest spennandi sem hann hefði nokkru sinni upplifað. „Ég hafði séð fyrir mér gríðarlega sprengingu á pallinum og að hjól með vörumerki Tesla myndi skoppa eftir veginum,“ sagði hann. „En sem betur fer gerðist það ekki.“

Við stýrið á sportbíl Musks er gína klædd í geimbúning. 

Hér er hægt að fylgjast með ferðalaginu í beinni útsendingu. Greinin heldur áfram fyrir neðan myndskeiðsgluggann.

Á vefmyndavél SpaceX mátti sjá Tesluna taka á loft út í geim og heyra lag David Bowie, Space Oddity, leikið undir. Í mælaborði bílsins mátti sjá skrifað: „Ekki fara á taugum!“ sem er tilvísun í bókina Hitchhiker's Guide to the Galaxy. Í bílnum er gagnageymsla þar sem m.a. má finna allar vísindaskáldsögur Isaac Asimov og skjal með nöfnum allra 6.000 starfsmanna SpaceX. 

Musk birti einnig myndskeið þar sem gínan, sem fengið hefur nafnið Starman, sést halda um stýrið og bíllinn fljúga um í geimnum þar sem jörðin sést speglast í gljáfægðu rauðu lakkinu.

Í gærkvöldi sagði hann frá því á Twitter að bíllinn væri nú kominn út af sporbaug jarðar og á leið á sporbaug um sólina þaðan sem hann mun svo færast nær Mars. 

Komst af geislavirka svæðinu

Bíllinn komst í heilu lagi í gegnum Van Allen-beltið, svæði mikillar geislavirkni, og hefur nú ferð sem gæti staðið í milljarða ára. Hann gæti mögulega farið í um 400 milljón kílómetra fjarlægð frá jörðu sem samsvarar ferðalagi með miðbaug jarðar tíu þúsund sinnum. 

„Kannski munu einhverjar geimverur framtíðarinnar uppgötva hann,“ sagði Musk við blaðamenn. Hann ímyndar sér að geimverurnar muni velta fyrir sér hlutverki bílsins og hvort jarðarbúar hafi mögulega tilbeðið hann. 

Geimskotið gekk að mestu samkvæmt áætlun. Tvær hjálparflaugar losnuðu frá geimflauginni um tveimur mínútum eftir flugtak og lentu samtímis uppréttar á lendingarpalli á jörðu niðri eins og ráð hafði verið fyrir gert. 

Þriðja flaugin lenti þó ekki á palli í sjónum eins og áætlanir höfðu gert ráð fyrir heldur í um 100 metra fjarlægð frá honum. 

Ný flaug á teikniborðinu

Sérfræðingar telja að geimferð SpaceX muni fanga athygli bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA og að mögulega muni hún nota Falcon Heavy til að komast til tunglsins en það hefur ekki verið reynt frá árinu 1972. 

Mynd tekin úti í geimnum af Starman við stýrið á ...
Mynd tekin úti í geimnum af Starman við stýrið á Teslunni. Jörðin fallega blá í baksýn. AFP

Forstjóri NASA, Robert Lightfoot, óskaði SpaceX til hamingju og sagði árangurinn stórkostlegan. Donald Trump Bandaríkjaforseti óskaði fyrirtækinu einnig til hamingju. 

Falcon Heavy tók á loft frá sama palli og NASA notaði við Apollo-geimáætlunina á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Og þó að geimflaugin sé sú kraftmesta sem til er í dag er hún ekki kraftmesta flaug allra tíma. Þann titil bera Saturn V og hin sovéska Energia. 

Falcon Heavy er 70 metrar á hæð og er hönnuð til að bera um 64 tonn eða álíka þunga og fullhlaðin farþegaþota. Hún var í fyrstu hönnuð með það í huga að flytja fólk á tunglið eða til Mars en áherslur verkefnisins breyttust og verður hlutverk flaugarinnar fyrst og fremst það að flytja búnað út í geim, að sögn Musks. 

SpaceX vinnur nú að hönnun nýs geimfars og er mögulegt að þar verði á ferðinni sú flaug sem ferjar fólk út í geiminn.

Elon Musk, stofnandi og forstjóri SpaceX, var í skýjunum með ...
Elon Musk, stofnandi og forstjóri SpaceX, var í skýjunum með hvernig til tókst. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

NUDD- LÁTTU DEKRA VIÐ ÞIG.
HEIT OLIA OG STEINAR- RÓAR HUGANN OG GEFUR BÆTTA LÍÐAN. tÍMAPANTANIR SIMI 8...
HRINGSTIGAR _ HRINGSTIGAR
Hringstigar, úti sem inni. Þvermál 120, 130, 140, 150, 160, 170 cm og sérsmíði í...
Ný jólaskeið frá ERNU fyrir 2018 komin.
Kíkið á nýju skeiðina á -erna.is-. Hún er hönnuð af Raghildi Sif Reynisdóttur og...
Trúlofunar- og giftingarhringar í úrvali
Auk gullhringa eigum við m.a. titaniumpör á fínu verði. Sérsmíði, framleiðsla og...