Tugir handteknir fyrir netglæpi

Hópurinn er talinn hafa verslað með stolin greiðslukort og lykilorð, …
Hópurinn er talinn hafa verslað með stolin greiðslukort og lykilorð, auk þess að taka þátt í bankasvindli og þjófnaði persónuupplýsinga.

36 manns hafa verið ákærðir fyrir þátt sinn í að reka netglæpahring sem sagður er bera ábyrgð á tjóni sem nemi 530 milljónum dollara.

BBC segir hópinn hafa verslað með stolin greiðslukort og lykilorð, auk þess að taka þátt í bankasvindli og þjófnaði persónuupplýsinga.

Viðskiptin fóru fram á dulnetinu og í mars í fyrra voru 10.901 manns skráðir á spjallþræði hópsins.

BBC hefur eftir breska dómsmálaráðuneytinu að 13 manns séu nú í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Í þeirra hópi er Bretinn Anthony Nnamdi Okeakpu, sem notar viðurnefnið „moneymafia“ og er hann sagður hafa gengið til liðs við hópinn í desember 2010.

Þá er Úkraínumaðurinn Svyatoslav Bondarenko, einnig meðal hinna ákærðu en hann er sakaður um að hafa í október 2010 búið til samtökin sem bera nafnið Infraud.

Fimm hinna ákærðu eru búsettir í Bandaríkjunum, en einnig hafa einstaklingar frá Frakklandi, Kanada, Pakistan, Rússlandi, Egyptalandi, Ítalíu og Makedóníu verið ákærðir í tengslum við rannsóknina.

„Eins og ákæran gefur til kynna þá starfar Infraud eins og fyrirtæki að því að greiða fyrir netglæpum á alþjóðlegum skala,“ sagði John Cronan settur saksóknari glæpasviðs ráðuneytisins.

„Talið er að félagar í samtökunum beri ábyrgð á tjóni að andvirði 530 milljónum dollara sem neytendur, fyrirtæki og fjármálastofnanir hafi orðið fyrir. Þá er fullyrt að tjónið sem þeir hafi ætlað sér að valda nemi meira en 2,2 milljörðum dollara.“

PayPal fyrirtækið og HSBC bankinn eru meðal þeirra sem orðið hafa fyrir tjóni af völdum Infraud.

Hafa bandarísk yfirvöld greint frá því að þau vinni nú að því að fá átta sakborninganna framselda til Bandaríkjanna.

Í ákærunni segir að Infraud hafi stefnt að því að reka vinsælasta vefsvæðið fyrir sölu á stolnum upplýsingum og eignum. Notuðu samtökin raunar útúrsnúning á texta sem birtist á bandarískum dollaraseðlum, „In God We Trust“ sem slagorð sitt og með því að skipta guði út fyrir svik – „In Fraud We Trust“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert