Handteknir fyrir dráp á órangútan

Læknir heldur á röntgen-mynd sem sýnir að órangútaninn var skotinn ...
Læknir heldur á röntgen-mynd sem sýnir að órangútaninn var skotinn um 130 skotum. AFP

Fjórir Indónesar hafa verið handteknir grunaðir um að hafa skotið órangútanapa 130 skotum með loftriffli, að því er lögreglan segir. Um er að ræða enn eina árásina á þessa fágætu dýrategund sem er í alvarlegri útrýmingarhættu.

Hinir grunuðu eru bændur á eyjunni Borneó. Þeir hafa játað að hafa skotið dýrið og segja það hafa reynt að eyðileggja akra sína þar sem þeir rækta m.a. ananas og hráefni í pálmaolíu. 

„Þeir ætluðu að reka [órangútaninn] burtu en í staðinn drápu þeir hann,“ segir lögreglustjórinn Teddy Ristiawan.

Mennirnir voru handteknir í síðustu viku og ákærðir fyrir drápið. Þeir eiga yfir höfði sér fimm ára fangelsisdóm og háa fjársekt. Fimmti maðurinn, þrettán ára drengur, var einnig handtekinn en hann var leystur úr haldi skömmu síðar vegna ungs aldurs.

Þorpsbúar á svæðinu fundu hræ órangútansins sundurskotið fyrir um tveimur vikum. Á hræinu voru einnig sár eftir sveðju.

Afhöfðað hræ órangútans fannst í á á Borneó í janúar. ...
Afhöfðað hræ órangútans fannst í á á Borneó í janúar. Tveir menn voru handteknir vegna þess dráps. AFP

Aðeins skömmu áður hafði lögreglan á Borneó handtekið tvo menn sem störfuðu á plantekrunum. Þeir eru grunaðir um að hafa skotið órangútan margoft og afhöfðað svo hræið. Hræið fannst í á á eyjunni. 

Borneó er að hluta undir yfirráðum Malasíu en að hluta undir yfirráðum Indónesíu. 

Órangútanar á Borneó sem og eyjunni Súmötru eru í mjög mikilli útrýmingarhættu. Á Súmötru er talið að dýrin séu aðeins um 15.000 talsins og á Borneó er stofnstærðin metin um 54 þúsund dýr.

Órangútönum hefur fækkað gríðarlega frá árinu 1999 eða um 150 þúsund. Helsta ógnin sem að þeim steðjar er skerðing búsvæða þeirra vegna skógarhöggs og akuryrkju. Sífellt meira land er brotið undir pálmaolíuakra. 

mbl.is
Nudd fyrir vellíðan og slökun
LÁTTU DEKRA VIÐ ÞIG MEÐ AFSLAPPANDI NUDDI. HEIT OLIA OG STEINAR. Allir með ...
Bækurnar að vestan slá í gegn!
Hvaða nýju bækur skyldu þetta nú vera? Brautryðjendur fyrir vestan, Að fortíð s...
Húsaviðgerðir
https://www.husco.is/...
Kolaportið alltaf gott veður!
Góða veðrið og góða skapið er í KOLAPORTINU!...