Í mál við Twitter fyrir að loka á sig

Jared hefur nú farið í mál við Twitter sem hann …
Jared hefur nú farið í mál við Twitter sem hann segir brjóta gegn rétti sínum til tjáningafrelsis. AFP

Hvíti þjóðernissinninn Jared Taylor hefur farið í mál við samskiptamiðilinn Twitter eftir að forsvarsmenn Twitter lokuðu reikningi hans í herferð sinni gegn efni sem þótt getur móðgandi.

Lögfræðingur Taylors segir ritskoðun felast í lokun reikningsins og að forsvarsmenn Twitter hafi með þessu gerst sekir um mismunun. Hjá Twitter neita menn að tjá sig um málið, en hafa áður sagt að samskiptamiðillinn eigi að vera ópólitískur.

Taylor er stjórnandi vefsvæðisins American Renaissance, sem hampar því að kynþættir séu ólíkir.

Það var í desember á síðasta ári sem Twitter lokaði reikningi hans með þeirri útskýringu að síður sem hömpuðu ofbeldi væru bannaðar. Taylor hafnar því alfarið að sú skýringi eigi við í sínu tilfelli.

Málið höfðaði hann fyrir dómstól í Kaliforníu og segir það brjóta gegn tjáningarfrelsisákvæði ríkisins, en ákvæðinu hefur ekki áður verið beitt gegn samfélagsmiðlum.

Noah Peters, lögfræðingur Taylors, segir alla eiga að vera „dauðhrædda“ við Twitter ritskoðunina.

Áhyggjuefni fái Twitter leyfi til ritskoðunar

„Ákæra okkar snýst ekki um það hvort að Taylor hafi á réttu eða röngu að standa. Heldur snýst hún um það hvort að Twitter og önnur tæknifyrirtæki hafi rétt á að banna einstaklingum að nýta þjónustu þeirra vegna meintra skoðana þeirra og tengsla,“ sagði Peters.

„Það er verulegt áhyggjuefni fái Twitter leyfi til ritskoðunar, ekki hvað síst með tilliti til sjálfskipaðrar herferðar þeirra að veita öllum vald til að mynda og deila hugmyndum samstundis og án hindrana.“

Samfélagsmiðlar sæta nú sívaxandi þrýstingi frá stjórnvöldum vegna fregna af fölskum fréttum og meiðandi efnis á miðlunum. Fyrr í þessari viku lokaði Twitter nokkrum reikningum vegna gruns um að ekki væru einstaklingar að baki þeim, heldur rússneskir bottar. Hefur sú aðgerð einnig sætt gagnrýni og forsvarsmenn samskiptamiðilsins sagðir vera einkum á verði fyrir hægri öfga skoðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert