Vilja banna plaströr

Flestir nota plaströr í um það bil 20 mínútur. Svo …
Flestir nota plaströr í um það bil 20 mínútur. Svo er þeim hent.

Bresk stjórnvöld ætla að skoða það að banna notkun plaströra til að draga úr mengun af völdum plasts í heimshöfunum.

Umhverfisráðherrann Michael Gove segir að ríkisstjórnin vilji gera allt sem í hennar valdi standi til að takmarka notkun plastöra. „Við erum að skoða hvort við getum bannað þau.“

Hann segir að mögulega verði slíkt bann einfaldara er Bretar ganga út úr Evrópusambandinu.

„Við höfum áhyggjur af því að Evrópulöggjöfin þýði að við getum ekki bannað rör í augnablikinu en ég er að gera allt hvað ég get til að tryggja að við getum útrýmt þessari plágu og ég vonast til að geta tilkynnt áform um það fljótlega.“

Talið er að á hverju ári séu plaströr sem notuð eru í Bretlandi 8,5 milljarðar. Í flestum tilvikum er hvert og eitt þeirra notað aðeins einu sinni. Plaströr eru einna algengasti plasthluturinn sem finnst á ströndum landsins. 

Frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert