Einföld ráð til að draga úr plastnotkun

Gott er að endurvinna, betra er að endurnýta en langbest …
Gott er að endurvinna, betra er að endurnýta en langbest er að draga úr plastnotkun. AFP

Langar þig að leggja þín lóð á vogaskálarnar svo draga megi úr plastmengun í umhverfinu, m.a. hafinu?

Bretar hafa tekið forystu í aðgerðum gegn plastmengun að ýmsu leyti. Þeir hafa bannað hið alræmda örplast sem m.a. er notað í fjölda snyrtivara, s.s. tannkrem. Örplastið fer yfirleitt beint út í skólpið og út í sjó þar sem það veldur skaða. Þá hyggjast þeir banna notkun plaströra.

 Gott ráð er að endurvinna en betra er að endurnýta og enn betra er að draga úr plastnotkun. 

Hér er að finna tíu einföld ráð til að hefja lífsstílsbreytinguna:

1. Hættu að nota plaströr, líka þegar þú ferð á veitingahús. Ef þú getur ekki án rörsins verið keyptu þér glerrör eða rör úr ryðfríu stáli. Ef þú getur ALLS EKKI fundið slíkt, notaðu þá hvert plaströr mörgum sinnum. 

Flestir nota plaströr í um það bil 20 mínútur. Svo …
Flestir nota plaströr í um það bil 20 mínútur. Svo er þeim hent.

2. Hættu að nota plasthnífapör. Þegar þú pantar mat heim skaltu láta veitingahúsið vita að þú vilji ekki fá plasthnífapör með. Og að sjálfsögðu ekki heldur plastdiska eða glös.

3. Notaðu margnotapoka þegar þú ferð að versla. Plastpokar eru tugi og jafnvel hundruð ára að brotna niður í náttúrunni. Það getur tekið tíma að venja sig á að taka pokann með sér út í búð en það hefst að lokum. Gott er að eiga 2-3 og hengja þá ávallt á góðan stað heima þar sem þeir blasa við þegar næst er farið í verslunarleiðangur. 

Hættu að nota plasthnífapör, plastdiska og plastbolla. Líka í útilegunni.
Hættu að nota plasthnífapör, plastdiska og plastbolla. Líka í útilegunni.

4. Forðastu að kaupa snyrtivörur sem innihalda örplast. Vandinn er sá að í innihaldslýsingunni stendur ekki einfaldlega „örplast“ eða „microbeads“ heldur orð á borð við polyethylene, polypropylene, polymethyl, polykatuc acid. Til að hjálpa þér við verkið getur þú sótt app, Beat the Microbead, til að bera kennsl á vörur sem innihalda þennan skaðvald.

Leitaðu að þessum innihaldsefnum í snyrtivörum. Þetta er örplast.
Leitaðu að þessum innihaldsefnum í snyrtivörum. Þetta er örplast.

5. Kauptu vörur í pappakössum frekar en plastumbúðum. Gott dæmi er þvottaduft. Pappi brotnar hraðar niður í náttúrunni en plast. Sömu sögu er að segja um efni í uppþvottavélar. Ef hverjum skammti er pakkað inn í plast, veldu aðra tegund.

6. Taktu margnotabollann þinn með þegar þú ferð að kaupa kaffi til að taka með á kaffihúsum. Taktu líka margnota ílát með þegar þú kaupir þér „boost“. Ef þú ferð á veitingahús og ætlar mögulega að taka afgangana heim, taktu eigið box með að heiman.

7. Búðu til þinn eigin ávaxtasafa heima frekar en að kaupa hann í plastflöskum úti í búð. Mun ferskara að auki!

Keyptu frekar efni í pappakössum en í plasti. Pappi brotnar …
Keyptu frekar efni í pappakössum en í plasti. Pappi brotnar fyrr niður í náttúrunni.

8. Kauptu þér margnotarakvél í stað einnota. 

9. Dragðu úr notkun á eyrnapinnum og mundu að þá á ekki að setja í klósettið að notkun lokinni. Best er auðvitað að hætta notkun þeirra alfarið.

10. Veldu ávexti og grænmeti í stykkjatali og slepptu því að setja það í plastpoka. Ef það er ekki í boði veldu þá þær vörur sem eru minnst inn pakkaðar. Sama máli gegnir um brauð. Kauptu það frekar í pappírsumbúðum en plastpokum.

Búðu til þinn eigin ávaxtasafa heima.
Búðu til þinn eigin ávaxtasafa heima. mbl.is

11. Og eitt atriði að lokum: Dragðu úr kaupum á drykkjarvörum í plastflöskum. Og ef þú kaupir vatn í flöskum á Íslandi: Hættu því.

Listinn er m.a. byggður á ráðum Green Education Foundation og Recycle Nation.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert