Kunna ekki að halda á blýanti

Með því að þjálfa ekki vöðvana í fingrunum glata börn ...
Með því að þjálfa ekki vöðvana í fingrunum glata börn hæfileikanum til að halda á blýtanti eða penna. mbl.is/Árni Sæberg

Börn eiga sífellt erfiðara með að halda á blýöntum og pennum þar sem þau nota snjalltæki það mikið að vöðvar í fingrum þeirra fá ekki þá þjálfun sem þarf til þess að geta haldið rétt á blýöntum og pennum, segir þekktur barnalæknir í Bretlandi.

Sally Payne barnalæknir hjá stofnun NHS, Heart og England, segir að þegar börn koma í skóla í dag þá sé handstyrkur þeirra og fingrafimi mun minni en verið hafi hjá sama aldurshópi fyrir tíu árum. 

„Börn sem koma í skóla í dag fá blýanta en þau eru ófær um að halda á þeim þar sem þau hafa ekki þá grunnhreyfigetu sem til þarf,“ segir Payne í viðtali við Guardian. 

Til þess að geta haldið á penna eða blýanti þurfa börn að hafa gott vald á fínhreyfingum og vöðvum í fingrum. Til þess þurfa börn á þjálfun að halda. Payne segir að fólk velji oft auðveldu leiðina og rétti börnum frekar spjaldtölvu í stað þess að hvetja þau til þess að leika sér í leikjum sem þjálfa vöðvana, svo sem með því að kubba, klippa og líma, toga hluti í sundur og saman ofl. 

Annað sem kennarar og læknar óttast er að þetta geti haft alvarleg áhrif á rithönd barna. Þau læri aldrei að skrifa skiljanlega skrift. Jafnframt að börn fari vart út að leika sér lengur heldur sitji inni með tæki.

Guardian

mbl.is