Ekki tvær gerðir sykursýki heldur fimm

Ekki eru bara til tvær gerðir sykursýki eins og hingað ...
Ekki eru bara til tvær gerðir sykursýki eins og hingað til hefur verið talið, heldur telja vísindamenn þær vera fimm. Getty Images/Zoonar RF

Ekki eru bara til tvær gerðir af sykursýki eins og talið hefur verið hingað til, heldur eru þær fimm og sérsníða þarf meðferðina að hverri gerð sjúkdómsins.

Greint er frá þessu á vef BBC  í dag, en í greininni er vísað í rannsóknir sænskra og finnskra vísindamanna sem telja þessa flóknu nýju mynd sem þeir hafa dregið upp kalla í framtíðinni á sérsniðnar meðferðir í framtíðinni.

Einn af hverjum 11 einstaklingum um heim allan finnur fyrir einkennum sykursýki, en sjúkdómurinn eykur hættuna á hjartaáfalli, heilablóðfalli, blindu, nýrnabilun og að taka þurfi útlimi af fólki.

Til þessa hefur sjúkdóminum verið skipt niður í sykursýki 1 sem flokkast sem ónæmiskerfissjúkdómur og sykursýki 2, sem hefur verið skilgreint sem lífsstílssjúkdómur.

Hver klasi með sín sérkenni

Rannsóknin var unnin í samstarfi sykursýkismiðstöðvar Háskólans í Lundi og stofnunar sameindarlæknisfræði í Finnlandi. Teknir voru til skoðunar 14.775 einstaklingar með sykursýki og gerð á þeim ítarleg blóðrannsókn. Niðurstöðurnar voru svo birtar í riti læknatímaritsins The Lancet um sykursýki og innkirtlafræði.

Þar kom fram að skipta mætti sjúkdóminum í fimm klasa sem hver hefði sín sérkenni.

Klasi 1 telst alvarlegt ónæmi, sem í grunninn er hið saman og áður hefur verið kallað sykursýki 1. Þessi gerð sjúkdómsins kemur upp hjá ungu og að því er virðist heilbrigðu fólki og ónæmissjúkdómurinn gerir viðkomandi einstaklingi ófært að framleiða insúlín

Klasi 2. Í honum eru þeir sykursýkissjúklingar sem einnig eru með verulegan insúlínskort og minna um margt á þá sem teljast til klasa 1. Þessi gerð greinist einnig hjá ungu, heilbrigðu fólki sem á erfitt með að framleiða insúlín. Í þessu tilfelli er ónæmiskerfinu hins vegar ekki um að kenna.

Klasi 3. Verulegt insúlínónæmi. Sjúklingarnir sem tilheyrðu þessum hópi voru yfirleitt í ofþyngd og líkami þeirra framleiddi insúlín, en brást hins vegar ekki lengur við insúlíninu.

Klasi 4. Mild útgáfa sykursýki sem tengist ofþyngd. Þessi gerð greindist hjá einstaklingum sem voru í ofþyngd, en sem voru efnaskiptalega nær norminu en einstaklingarnir í klasa 3.

Klasi 5. Mild útgáfa sykursýki sem tengist aldri. Einstaklingarnir í þessum hópi voru eldri en í hinum hópunum er þeir fengu einkenni sykursýki og voru einkenni sjúkdómsins almennt vægari.

Skref í átt að einstaklingsmiðaðri meðferð

„Þetta er mjög mikilvægt,“ hefur BBC eftir einum vísindamannanna prófessor Leif Groop. Sagði hann að með þessu væru tekin raunveruleg skref í átt að einstaklingssniðinni meðferð.

„Í hinum fullkomna heimi þá er þessari greiningu beitt strax og við veitum þá nákvæmari meðferð,“ sagði Groop. Þannig væri hægt að veita ákafari meðferð við þremur fyrri gerðunum en þeim tveimur síðari.

Rannsóknin benti einnig til þess að þeim sem voru í klasa 2 var hættara við blindu en öðrum og að hættan á nýrnasjúkdómi var mest hjá þeim sem voru í klasa 3. Því sé mögulega þörf á auknum rannsóknum hjá einstaklingum í þessum klösum.

Dr. Victoria Salem, ráðgjafi og vísindamaður við Imperial College London, sagði flesta sérfræðinga gera sér grein fyrir að það væri ekki sérlega nákvæmt kerfi að flokka sykursýki í gerð eitt og gerð tvö.

„Við munum örugglega líta sykursýkissjúkdóma þessum augum í framtíðinni,“ sagði hún, en ítrekaði að þær breytingar yrðu þó ekki strax.

Þátttakendur í rannsókninni voru allir Norðurlandabúar og sykursýkishættan er mjög breytileg eftir löndum og eru Suður-Asíubúar t.a.m. líklegri til að greinast með sykursýki.

„Það er enn heilmikið sem við vitum ekki og það getur vel verið að á heimsvísu séu 500 undirhópar sjúkdómsins þar sem að erfðir og umhverfi eiga þátt að máli,“ sagði Salem.

mbl.is
Faglærður húsasmiður .
B.Bollason ehf. Byggingaverktaki. Tek að mér smíðavinnu fyrir einstaklinga og f...
UNDIR ÞESSU MERKI SIGRAR ÞÚ
Hálsmen úr silfri 6.900 kr., gulli 49.500 kr., (silfur m. demanti 11.500 kr., g...
INTENSIVE ICELANDIC, ENGLISH, NORWEGIAN & DANISH f. foreigners - ÍSLENSKA f. útlendinga - ENSKA f. fullorðna - NORSKA
ÍSLENSKA, ENSKA, NORSKA, DANSKA I, II, III, IV, V, VI: 2019:SPRING/VORÖNN: ...
Gefins - áttu klink sem þú mátt missa?
Kattholt þiggur með þökkum smámynt (hvaðan sem er). Þetta fer til að fjármagna...