Besti hliðarvindur í heimi

Bjarni V. Tryggvason, fyrsti íslenski geimfarinn, hélt erindi um geimflug, …
Bjarni V. Tryggvason, fyrsti íslenski geimfarinn, hélt erindi um geimflug, flugvélaprófanir og rannsóknir og þróun á sviði verkfræði í HR í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni V. Tryggvason, fyrsti íslenski geimfarinn, er staddur hér á landi til þess að vinna með Isavia að þróun á flugvélaprófunum á Keflavíkurflugvelli. „Við erum að prófa nýjar flugvélar og þessi flugvöllur er með mjög góð skilyrði fyrir slíka prófanir“ segir Bjarni við mbl.is. Að sögn Bjarna er verið að starfa með stórum flugvélaframleiðendum í þeim tilgangi að prófa vélar í hliðarvindi, „besta hliðarvindi í heimi“ bætir hann við.

Bjarni hélt fyrirlestur um geimflug, flugvélaprófanir og rannsóknir og þróun á sviði verkfræði í HR í dag undir heitinu Ævintýri lífs míns: verkfræði og flug. Hann á yfir 6300 flugtíma að baki á yfir 50 flugvélategundum og hefur meðal annars verið listflugmaður, flugkennari og prófunarflugmaður.

Flugprófanir í hliðarvindi hafa verið framkvæmdar um árabil á Keflavíkurvelli, en fyrir nokkrum árum tók Isavia ákvörðun um að hætta slíkum prófum í Keflavík. 

„Ég kom fyrir um mánuði með fulltrúum Boeing, Airbus og Gulfstream til þess að ræða við Isavia og athuga hvers vegna það væri vandamál að halda flugprófanir hér. Ákvörðun Isavia um að hætta flugprófunum er skiljanleg, enda var það vegna þess að þeir töldu ákveðna áhættu fylgja slíku,“ segir Bjarni.Kjöraðstæður fyrir flugprófanir

Þegar var ákveðið var að hætta flugprófunum á Keflavíkurvelli, hafði þegar verið gefið vilyrði fyrir því að kínverskur framleiðandi fengi að framkvæma flugprófun vegna nýrrar vélar sem þeir hafa þegar tekið í notkun. 

„Þar sem Isavia hafði tekið fyrir flugprófanir bauðst ég til þess að koma og aðstoða Isavia við að skoða þau vandamál sem tengdust prófunum, enda var ljóst að ef Kínverjarnir hefðu lent í vandamálum þá myndi kannski verða lokað á flugprófun hér fyrr fullt og allt“ að sögn Bjarna. 

„Kínverjarnir hafa verið með allt á hreinu, en smá hnökrar tengdust tungumálaörðugleikum, en nú eru þeir hér og bíða bara eftir vindi sem er ótrúlegt, þetta er hugsanlega mesta kyrrð sem ég hef nokkurn tíma upplifað á Íslandi í tvær heilar vikur,“ bætir hann við og hlær.

Samkvæmt Bjarna er „undir venjulegum kringumstæðum, alltaf vindur á Keflavíkurvelli og því kjöraðstæður fyrir flugprófanir.“

Aðspurður um þá erfiðleika sem stundum eru við lendingar á Keflavíkurvelli segir hann „það getur stundum verið vindur jafnvel milli flugbrauta og flugmenn sem ætla að lenda hér verða að kunna að lenda í hliðarvindi. Bætist við að bæði Icelandair of Wow hyggjast kaupa flugvélar frá Boeing og Airbus og til þess að hægt sé að nota þessar vélar hér, verður að prófa þær fyrst við þessar aðstæður svo hægt sé að lenda. Standast vélar próf hér geta þær í raun lent hvar sem er í heiminum.“

Framleiðendur vilja nota Keflavíkurflugvöll

Hliðarvindsprófanir eru mikilvægur þáttur í vottunarferli flugvéla, en íslensk yfirvöld votta ekki flugvélar og því er ekki mikil þekking á því sviði hérlendis, samkvæmt Bjarna og bætir við að „Isavia hefur viljað kortleggja betur um hvað þessar flugprófanir snúast og hvaða áhættur því fylgja.“

Þegar blaðamaður spyr hvort líklegt sé að fleiri flugprófanir verða í framtíðinni, segir Bjarni Boeing og Airbus þegar hafa sýnt þessu áhuga. „Í þessari viku kom beiðni frá Airbus um að fá að prófa Airbus 330 í sumar og Boeing vill prófa 737 Max í haust, ásamt nýju 787-10. Nú getur Isavia svarað slíkum beiðnum með meiri festu um hvað á að leyfa og hvað ekki" að sögn hans.

Í næstu viku er haldinn alþjóðleg ráðstefna flugvélaframleiðenda í Seattle í Bandaríkjunum og á þessum fundi stendur til að upplýsa um flugprófunaraðstæður og skilyrði á Keflavíkurvelli.

Bjarni geimfari í einkennisfatnaði NASA
Bjarni geimfari í einkennisfatnaði NASA Ljósmynd/NASA

Fyrsti íslenski geimfarinn

Bjarni er hugsanlega frægastur hérlendis fyrir að vera fyrsti íslenski geimfarinn, en hann var hluti áhafnar geimskutlunni Discovery árið 1997 og dvaldi hann í geimnum í rúma 10 daga. Þá hefur hann hlotið þjálfun hjá NASA og alþjóðlegu geimstöðinni. Einnig hefur hann þróað hugbúnað sem notaður hefur verið í rússnesku MIR geimstöðinni, bandarísku geimskutlunni og alþjóðlegum geimstöðinni (ISS). Hann hefur gegnt stöðum og kennt loftaflsfræði, stærðfræði og hönnun kerfa fyrir geimferðir í fjölmörgum háskólum.

Um hvernig honum líkar titilinn að vera fyrsti íslenski geimfarinn segist Bjarni ekki vera fyrstur heldur eini íslenski geimfarinn og hlær. 

„Þetta er kannski vottur um bjartsýni íslendinga að tala um þann fyrsta, ég vona auðvitað við verðum fleiri.“ Að sögn hans er alls ekki útilokað að fleiri íslendingar geta orðið geimfarar, sérstaklega þar sem Ísland hefur öðlast aðild að Evrópsku geimvísindastofnuninni. Tekur hann fram að það myndi þó kosta gríðarlega fjármuni og myndi í fyrsta lagi gerast upp úr 2030.

mbl.is