WHO kannar áhrif örplasts í vatni

Plast, fyrst og fremst plastflöskur, á strönd á Balí.
Plast, fyrst og fremst plastflöskur, á strönd á Balí. AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur hafið skoðun á plastmengun í drykkjarvatni. Við könnun sína mun stofnunin styðjast við nýjar rannsóknir um útbreiðslu svokallaðs örplasts í vatni. Örplast eru eins og orðið gefur til kynna örsmáar agnir plasts sem vart eru sjáanlegar og því hægt að innbyrða óafvitandi.

Stofnunin ákvað að fara í þetta verkefni í kjölfar fréttaflutnings samtakanna Orb Media  um að örplast sé að finna í mörgum tegundum vatns sem selt er í plastflöskum.

Í frétt BBC um málið segir að engar rannsóknir hafi sýnt fram á heilsuspillandi áhrif örplasts í mannslíkamanum en skortur á rannsóknum gæti verið um að kenna og því vill stofnunin kanna málið til hlítar.

Gríðarlegt magn af plasti við strendur Fílabeinsstrandarinnar. Myndin er tekin …
Gríðarlegt magn af plasti við strendur Fílabeinsstrandarinnar. Myndin er tekin í febrúar. AFP

Bruce Gordon, sérfræðingur hjá WHO, segir í samtali við BBC að lykilatriðið sé að komast að því hvort að örplast geti haft áhrif, sé þess neitt í mat eða drykk yfir langt tímabil. „Þegar við hugsum um efnainnihald plasts, að þar gæti leynst eiturefni, og hvort það sé skaðlegt fyrir líkamann, þá eru einfaldlega ekki nægar rannsóknir til staðar til að segja til um það,“ segir Gordon. Hann segir að þegar rætt sé um innihald matar og drykkjar séu alltaf sett einhver viðmiðunarmörk á ákveðin efni en til að slíkt sé hægt að gera verði að rannsaka magn efnanna og áhrif þeirra. 

Gordon segir að tilgangurinn sé ekki að hræða neinn og bendir á að mun meiri hætta stafi af drykkjarvatni sem sé t.d. mengað af skólpi. Hann segir hins vegar að umræðan um örplast sé ný af nálinni og því hafi fólk skiljanlega áhyggjur af mögulegri skaðsemi þess.

Í nýlegri rannsókn, þeirri stærstu sinnar tegundar hingað til, var vatn í 250 plastflöskum frá ellefu framleiðendum í níu löndum skoðað. Rannsóknin var framkvæmd af vísindamönnum við háskóla í New York og var hluti af umfjöllun bandarísku fjölmiðlasamtakanna Orb Media. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að 10 plastagnir að meðaltali fundust í hverjum lítra vatnsins sem var rannsakað. Þær agnir voru sambærilegar mannshári í þvermál. Einnig fundust minni agnir og var fjöldi þeirra 314 að meðaltali í hverjum lítra.

Innan við helmingur allar plastflaskna sem seldur er í heiminum …
Innan við helmingur allar plastflaskna sem seldur er í heiminum fer til endurvinnslu. AFP

Í sautján plastflasknanna fundust engar plastagnir en í öðrum fundust mörg hundruð og jafnvel fleiri þúsund. Mikill munur var á milli framleiðenda en einnig á milli flaska frá sama framleiðanda. Haft var samband við framleiðendurna og sögðust þeir standa með niðurstöðum síns gæðaeftirlits. Hins vegar er ljóst að í sumum flöskunum var mun meira af örplasti en rannsóknir framleiðendanna sögðu til um og því þykir vísindamönnunum sem gæðaeftirlitinu sé mjög ábótavant.

Aðrar rannsóknir hafa sýnt að örplast er að finna í bjór, kranavatni, sjávarsalti og fiski. Það sem enn vantar að rannsaka er hvort að plastið sé skaðlegt heilsu fólks til styttri eða lengri tíma litið.

Í frétt BBC kemur fram að á hverri mínútu sé 1 milljón plastflaskna keypt í heiminum eða um 20 þúsund á hverri mínútu. Innan við helmingur þeirra fer til endurvinnslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert