Meiri vöxt þrátt fyrir fórnarkostnaðinn

Facebook hefur verið mikið í umræðunni undanfarið eftir að ráðgjafarfyrirtækið …
Facebook hefur verið mikið í umræðunni undanfarið eftir að ráðgjafarfyrirtækið Cambridge Analytica komst yfir persónuupplýsingar 50 milljóna manna. AFP

Facebook hefur ekki átt sjö dagana sæla eftir að upp komst um að breska ráðgjafarfyrirtækið Cambridge Analytica hefði nýtt sér gögn um 50 milljónir facebooknotenda, m.a. í kosningabaráttu í Bandaríkjunum og Bretlandi. Facebook játaði mistök og sagði það á sína ábyrgð að vernda gögnin sem ráðgjafarfyrirtækið komst yfir.

Í gær birti vefurinn Buzzfeed minnisblað sem lekið var til miðilsins en minnisblaðið skrifaði einn af framkvæmdastjórum Facebook fyrir tveimur árum. Þar gefur Andrew „Boz“ Bosorth, einn af framkvæmdastjórum Facebook í innsta hring Marks Zuckerbergs, forstjóra Facebook, til kynna að samfélagsmiðillinn ætli að halda áfram að vaxa, sama hvað það kosti. 

Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook.
Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook. AFP

„Ljóti sannleikurinn er einfaldlega sá að við trúum svo innilega á tenginguna milli fólks að allt sem við gerum til að tengja fleira fólk saman, og oftar, er í raun og veru jákvætt,“ segir i minnisblaðinu sem Bosorth skrifaði.

Sagði hann að útkoman af bættri tengingu milli manna gæti sannarlega leitt til jákvæðra hluta, leitt til ástarsambanda eða jafnvel komið í veg fyrir sjálfsvíg. En afleiðingarnar geti líka verið neikvæðar, kostað einhvern lífið vegna neteineltis eða skapað vettvang til skipulagningar á hryðjuverkum. 

„Ég er ekki sammála þessum skilaboðum í dag, og var það ekki heldur þegar ég skrifaði minnisblaðið,“ segir Bosworth í yfirlýsingu sem hann sendi AFP-fréttaveitunni vegna málsins. „Tilgangurinn með minnisblaðinu var að opna á þessa umræðu sem mér þótti þörf á, um hluti sem þörfnuðust meiri umræðu innan fyrirtækisins.“

Mark Zuckerberg sagði í samtali við AFP Bosworth vera mjög hæfileikaríkan leiðtoga sem væri óhræddur við að ögra, sem kemur fram t.d. í umræddu minnisblaði. „En þessu voru flestir hjá Facebook hjartanlega ósammála, þar á meðal ég. Við höfum aldrei trúað því að tilgangurinn helgi meðalið. Það er ekki nóg að tengja fólk saman, það þarf að tengja fólk betur saman,“ sagði Zuckerberg við AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert