Áfengi styttir lífið

Niðurstöður nýrrar breskrar rannsóknar sýna að fólk sem drekkur fimm …
Niðurstöður nýrrar breskrar rannsóknar sýna að fólk sem drekkur fimm til tíu áfenga drykki á viku styttir meðalævi sína um sex mánuði. Ljósmynd/Thinkstock Photos

Sagt er að hláturinn lengi lífið en svo er ýmislegt sem styttir lífið. Áfengisnotkun fer þar ef til vill fremst í flokki og niðurstöður nýrrar breskrar rannsóknar benda til þess að áfengi stytti lífið.

Í niðurstöðunum sem eru birtar í vísindatímaritinu The Lancet og BBC greinir frá segir meðal annars að regluleg áfengisdrykkja yfir viðmiðunarmörkum geti stytt meðalævi um nokkur ár.

Rannsóknin náði til 600.000 manns og í henni kemur fram að með því að drekka 10-15 áfenga drykki á viku geti viðkomandi stytt meðalævi sína um eitt til tvö ár. 

Sex stórir bjórar á viku passlegt magn

Samkvæmt nýlegum breskum viðmiðum um áfengisneyslu er mælt með að fólk neyti ekki meira en 14 áfengiseininga á viku, það er meira en sex stórra bjóra eða sjö vínglasa. 

Rannsakendur benda á að rannsókn þeirra styrki stoðir nýju viðmiðanna og sýni einnig fram á að meðalævi þeirra sem drekka áfengi í minna magni er ekki í hættu á að styttast.

Áfengisneysla og heilsufar fólks í 19 mismunandi löndum var borin saman og settu rannsakendurnir upp líkan þar sem metið var hversu mörg ár viðkomandi mætti eiga von á að missa ef þeir viðhéldu sömu drykkjuvenjum frá 40 ára aldri og það sem eftir er ævinnar.

Niðurstöðurnar sýna að fólk sem drekkur fimm til tíu áfenga drykki á viku styttir meðalævi sína um sex mánuði.

Auknar líkur á hjarta- og æðasjúkdómum

Þá greindu rannsakendur fylgi á milli drykkju og hjarta- og æðasjúkdóma. Fyrir hverjar 12,5 áfengiseiningar sem fólk neytir umfram neysluviðmið aukast líkurnar á heilablóðfalli um 14%, lífshættulega háum blóðþrýstingi um 24%, hjartabilun um 9% og hjartaáfalli um 15%.

Neysluviðmið áfengis eru tæplega 50% hærri á Ítalíu, Portúgal og Spáni en í Bretlandi og í Bandaríkjunum er hæsta neysluviðmið karla tvöfalt hærra en í Bretlandi.

Rannsakendur vilja meina að niðurstöðurnar hreki niðurstöður rannsókna sem fegra áfengisneyslu, svo sem að rauðvín geti gert hjartanu gott og að regluleg drykkja geti minnkað lýkur á sykursýki.

Vín er víst ekki gott fyrir hjartað samkvæmt nýrri rannsókn …
Vín er víst ekki gott fyrir hjartað samkvæmt nýrri rannsókn sem birt er í vísindatímaritinu The Lancet. Heiðar Kristjánsson

Enginn heilsufarslegur ávinningur af áfengisdrykkju

„Rannsóknin sýnir að öllu jöfnu er enginn heilsufarslegur ávinningur af því að drekka áfengi,“ segir Tim Chico, prófessor í hjarta- og æðasjúkdómum við Háskólann í Sheffield. Hann var þó ekki hluti af rannsóknarteyminu.

Doktor Angela Wood leiddi rannsóknarteymið og segir hún að úr niðurstöðunum megi lesa þau skilaboð að þeir sem drekka áfengi ættu að drekka minna af því. „Það gæti hjálpað þér að lengja lífið og minnka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert