Brjóta heilann yfir dularfullum ísglufum

Ísglufurnar umtöluðu sjást hér greinilega.
Ísglufurnar umtöluðu sjást hér greinilega. Ljósmynd/NASA

Dularfullar glufur í ís norðurheimskautsins hafa síðustu mánuði valdið vísindamönnum bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA miklum heilabrotum.

Stofnunin hefur undanfarna áratugi flogið reglulega yfir bæði heimskaut jarðar, í því skyni að fræðast um tengsl loftslagskerfa heimsins og athuga áhrif hnattrænnar hlýnunar á þessi köldu svæði hnattarins. Rannsóknirnar eru ítarlegar og ávallt er notast við nýjustu tækni, en eftir þessa nýju uppgötvun standa vísindamenn á gati.

Ráðgáta aprílmánaðar

„Við sáum þessi hálfhringlaga kennileiti í aðeins nokkrar mínútur í dag,“ skrifaði vísindamaðurinn John Sonntag, sem tók myndina hér að ofan, eftir að hafa fyrst borið glufurnar augum. „Ég man ekki eftir að hafa séð nokkuð þessu líkt annars staðar.“

NASA ákvað að leysa þyrfti gátuna og birti stofnunin myndina sem ráðgátu aprílmánaðar á vef sínum, en þar birtast í hverjum mánuði gervihnattamyndir þar sem áhugasamir eru hvattir til að giska á hvar þær séu teknar og hvað sé markvert við þær.

Látið er þó hjá líða að nefna að vísindamennirnir vita það ekki einu sinni sjálfir.

Selir eða hlýr sjór?

Sú ályktun hefur verið borin fram, að holurnar hafi skapast þar sem hlýr sjór hafi færst undir þunnan ísinn þar sem hann liggur ofan á hafinu. Eða þá að selir hafi náð að mynda holur í ísinn, til að komast upp á yfirborðið og ná í súrefni, að því er fram kemur í umfjöllun Washington Post.

Ekki er víst hvort þessar ályktanir eða aðrar fáist nokkurn tíma staðfestar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert