Skipsflök fundust við leitina að MH370

Talið er að bæði flökin séu bresk kolaflutningaskip frá 19. …
Talið er að bæði flökin séu bresk kolaflutningaskip frá 19. öld. Mynd/Áströlsk samgönguöryggisyfirvöld

Leitin að flaki farþegaþotu Malaysia Airline, flugi 370, hefur enn ekki borið árangur, nú fjórum árum eftir að flugvélin hvarf af ratsjám á leiðinni frá Kuala Lumpur til Peking með 239 farþega innanborðs. Hins vegar fundu rannsakendur tvö skipsflök á botni Indlandshafs árið 2015 og nú er nærri því búið að komast að því hver skipin eru. Flökin tvö eru sögð vera af breskum kolaflutningaskipum frá 19. öld.

Ástralskir fræðimenn hafa notað sónarmyndir og gamlar skipaskrár í viðleitni sinni til að komast að því hvaða fley það eru sem liggja þarna á hafsbotni. Fjallað um málið á vef breska ríkisútvarpsins, BBC.

Fyrra skipið fannst í maí árið 2015 og var með viðarbol. Það telur Dr. Ross Anderson, sjávarfornleifafræðingur í Ástralíu að sé annað hvort flak skipsins W. Gordon, sem var á leið frá Skotlandi til Ástralíu árið 1877, eða skipsins Magdala, sem hvarf árið 1882 á leið sinni frá Wales til Indónesíu. Talið er að um 15-30 menn hafi verið í áhöfn skipa sem þessara.

„Ummerki benda til þess að skipið hafi sokkið vegna atburða á borð við sprengingar, sem voru algengar í kolaflutningi,“ segir Anderson.

Flakið sennilega af West Ridge en ekki hægt að slá því föstu

Seinna skipið var barkskip úr járni og fannst við fínkembingu sjávarbotnsins í desember 2015. Þar segir Anderson að um gæti verið að ræða þrjú skip. West Ridge, sem týndist árið 1883, Kooringa sem týndist 1894 eða Lake Ontario, sem týndist árið 1897.

Teikningar af West Ridge úr skipaskránni munu passa best við ummerkin um flakið á hafsbotni, að sögn Anderson, þrátt fyrir að ónákvæmar sögulegar heimildir geri það ómögulegt fyrir rannsakendur að slá því fram með fullkominni vissu.

Er skipið hvarf á sínum tíma voru 28 í áhöfninni, á leið frá Englandi til Indlands. Anderson segir að skipið hafi verið á milli 1.000 og 1.500 tonn að þyngd og að flakið sé í nokkuð heilu lagi á sjávarbotninum, á um það bil fjögurra kílómetra dýpi.

Opinber leit yfirvalda í Ástralíu, Malasíu og Kína að flugi MH370 skilaði engum árangri, en henni var hætt í janúar árið 2016. Fyrr á þessu ári byrjaði þó bandarískt einkafyrirtæki að leita að flakinu úr lofti, en sú leit hefur ekki heldur skilað árangri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert