Facebook bannar 200 öpp

Facebook hefur látið rannsaka þúsundir appa sem tengjast samfélagsmiðlinum og …
Facebook hefur látið rannsaka þúsundir appa sem tengjast samfélagsmiðlinum og notkun um 200 þeirra hefur verið hætt vegna gruns um að þau misnoti upplýsingar Facebook-notenda. AFP

Facebook hefur bannað um 200 smáforritum (öppum) að nota samfélagsmiðilinn í tengslum við rannsókn á misnotkun á persónuupplýsingum notenda.

Fyrirtækið hóf rannsókn sína í kjölfar þess að fjölmiðlar greindu frá því að pólitíska ráðgjafafyrirtækið Cambridge Analytica hefði notað upplýsingar milljóna Facebook-notenda til að aðstoða Donald Trump við að hafa sigur í bandarísku forsetakosningunum haustið 2016.

„Rannsóknin er í fullum gangi,“ sagði í yfirlýsingu frá Ime Archibong, aðstoðarframkvæmdastjóra vörusamskipta Facebook.

„Fjölmenn teymi sérfræðinga innan og utan fyrirtækisins vinna ötullega að því að rannsaka þessi öpp eins hratt og þeir geta. Til þessa hafa þúsundir appa verið rannsökuð og notkun um 200 þeirra hefur verið hætt og bíða þau nú ítarlegrar rannsóknar á því hvort að þau hafi í raun misnotað upplýsingar.“

Sagði Archibong að í þeim tilfellum þar sem vísbendingar hefðu fundist um misnotkun gagna hafi öppin verið bönnuð og notendur látnir vita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert