Beita nýrri aðferð við rannsóknir eldgosa

Eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010.
Eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010. mbl.is/RAX

Teymi eldfjallafræðinga við Háskólann í Leeds hefur undanfarið, í samstarfi við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, rannsakað leiðir í tímaskölun eldgosa til þess að spá megi betur fyrir um þau. „Þetta er stórt skref,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, sem unnið hefur með teyminu að undanförnu. Þorvaldur segir jafnframt að niðurstöður rannsóknarinnar séu áhugaverðar.

„Við sjáum tímaskalana á þeim ferlum sem leiða til eldgosa. Þetta mun auka skilning á því hvernig eldfjöll undirbúa sig undir eldgos og þarna erum við komin með eitt tæki til viðbótar sem sér hvernig eldfjöllin undirbúa sig, hvað kvikan er að gera og hvert hún er að fara.“

Kristallarnir klukka eldgossins

Teymið notaðist aðallega við sýni og gögn úr eldgosinu í Eyjafjallajökli árið 2010. Eldfjallafræðingarnir rannsökuðu kristalla í hrauni eldgossins og rýndu þannig í sögu þess. „Við getum horft lengra aftur í tímann í einstökum gosum heldur en er hægt að gera með öðrum tækjum og við getum farið og skoðað eins mörg gos og okkur langar til, svo lengi sem við höfum þessa kristalla sem eru í raun klukka eldgossins,“ útskýrir Þorvaldur.

Markmið hópsins er að safna saman gögnum sem geyma upplýsingar um einstök eldfjöll. „Hugmyndin hjá okkur er að byggja upp gagnabanka fyrir einstök eldfjöll um hvernig ferðalag kvikunnar er. Þannig getum við rakið stóran hluta af ferðalaginu, alveg til loka. Út frá gagnasafninu ættum við að geta séð hvað er dæmigert fyrir hvert og eitt eldfjall.“

Geti séð kvikubreytingar fyrr en ella

Þorvaldur vonast til þess að með þessum aðferðum verði hægt að greina frekar þýðingu óróa í jarðskorpunni, s.s. jarðskjálfta, og þannig verði hægt að sjá fyrr hvernig kvikan hegðar sér í undirbúningi eldgoss.

Aðspurður hvenær hann telji að eldfjallafræðingar muni byrja að nýta sér þessar nýju aðferðir segir hann að þeir séu þegar byrjaðir að notast við þær. „En þetta er allt á frumstigi. Svo er framhaldið náttúrulega háð því hversu auðvelt verður fyrir okkur að ná í rannsóknarfé. Ég held að allir sjái gagnið í þessu,“ segir Þorvaldur að lokum.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert