Kramdist undir stólpa í Pompeii

Beinagrindin undir stólpanum.
Beinagrindin undir stólpanum. Skjáskot/YouTube

Örlög karlmanns sem tókst í fyrstu að sleppa er sprengjugos hófst í Vesúvíusi í rómönsku borginni Pompeii árið 79 urðu þau að hann varð undir stólpa á flóttanum og kramdist til bana. Þetta er niðurstaða fornleifafræðinga á beinagrind sem fannst í borginni fornu á Ítalíu. Kraftmikil sprenging í eldfjallinu hefur að öllum líkindum þeytt stólpanum upp í loftið og hafnaði hann á höfði mannsins. 

Nú hafa verið birtar átakanlegar myndir af beinagrindinni og sjá má hvernig steininn hefur afhöfðað manninn er gosið hófst fyrir tæplega 2000 árum síðan. 

Í frétt CNN um rannsóknina segir að fornleifafræðingarnir telji að maðurinn hafi verið að minnsta kosti þrítugur. Hann virðist hafa glímt við sýkingu í beinum og það gæti hafa hamlað honum á flóttanum undan eldgosinu. Hins vegar er talið að honum hafi tekist að flýja niður húsasund er eldgosið hófst í fyrstu. Líklega hefur hann haltrað niður götuna vegna sjúkdómsins. En ekki vildi betur til en svo að á flóttanum varð hann undir stórum steinstólpa er kraftmikið gjóskuflóðið frá eldfjallinu þrýsti sér í gegnum byggingar og göturnar. 

Í hópi vísindamanna sem nú rannsaka verksummerki eldgossins á Pompeii eru auk fornleifafræðinga verkfræðingar og aðrir sérfræðingar sem myndað hafa svæðið með drónum og þannig byggt upp þrívíddarkort af svæðinu.

Frétt CNN.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert