Microsoft kaupir GitHub

Microsoft kaupir GitHub fyrir 7,5 milljarða dollara.
Microsoft kaupir GitHub fyrir 7,5 milljarða dollara. AFP

Microsoft hefur keypt tæknifyrirtækið GitHub, en það er eitt stærsta útgáfustjórnunarkerfi í hugbúnaðargerð í heiminum og eru notendur þess rúmlega 28 milljónir.

Kaupverð Microsoft á GitHub nemur 7,5 milljörðum dollara eða tæplega 800 milljarða íslenskra króna en Microsoft borgar allt kaupverðið í hlutabréfum. 

Chris Wanstrath forstjóri GitHub lætur af störfum við sameininguna. „Ég er mjög stoltur af því hvað GitHub samfélagið hefur áokrað síðustu 10 ár og ég get ekki beðið eftir því að sjá hvað kemur næst. Framtíð hugbúnaðarþróunar er björt og ég er gríðarlega ánægður að við séum að ganga til liðs við Microsoft,“ segir Chris Wanstrath í fréttatilkynningu frá Microsoft en Nat Friedman, stjórnandi hjá Microsoft og stofnandi Xamarin verður forstjóri GitHub.

GitHub er notað í miklum mæli hjá hugbúnaðarfyrirtækjum hér á landi en útgáfustjórnunarkerfið hentar vel hugbúnaðarþróunarteymum sem vinna öll að sama kóðanum í einu. Microsoft mun leggja áherslu á það að halda GitHub sjálfstæðum og opnum áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert