Í mál við NASA vegna tunglryks

Bandaríski geimfarinn Neil Armstrong gaf Lauru Cicco tunglrykið er hún ...
Bandaríski geimfarinn Neil Armstrong gaf Lauru Cicco tunglrykið er hún var 10 ára. Hún óttast nú að NASA reyni að taka gjöfina eignarnámi. -

Kona nokkur í Tennessee hefur höfðað mál gegn bandarísku geimferðastofnuninni NASA vegna eignarhalds á glerglasi með tunglryki.

Konan Laura Cicco segir geimfarann Neil Armstrong hafa gefið sér tunglrykið þegar hún var tíu ára. Nú tæpum 50 árum síðar hefur hún höfðað mál fyrir alríkisdómstól af ótta við að NASA reyni að taka tunglrykið eignarhaldi.

BBC segir umdeilt í skilningi bandarískra laga hvort að einstaklingar megi eiga tunglryk.

Í málshöfðun Ciccos er því haldið fram að búið sé að sannreyna með prófunum að um tunglryk sé að ræða. Sumir sérfræðingar draga þær fullyrðingar hins vegar í efa. Glasið með tunglrykinu kann hins vegar að reynast einkar verðmætt en þó lagalega áhætta fylgi því fyrir Cicco að selja það.

Allt tunglefni eign bandaríska ríkisins

„NASA lítur svo á að allt tunglefni sé eign ríkisins,“ segir lögfræðingur Ciccos, Christopher McHugh. Þeir hafa gert húsleitir í anda sérsveita á heimilum fólks sem á slíkt efni og koma fram við það eins og glæpamenn. Ég vil ekki að þeir geri Lauru það.“

Árið 2012 samþykkti Bandaríkjaþing lög sem kveða á um að taki geimfarar „muni“ með sér heim úr geimferðum sínum – m.a. flugbækur, dagbækur eða hluti úr geimskipinu sé það þeirra eign og að alríkisyfirvöld muni ekki reyna að kasta eign sinni á þá. Tunglsteinar og annað tunglefni er hins vegar undanskilið lögunum.

Talsmaður NASA neitaði að tjá sig um málið eða skýra afstöðu stofnunarinnar til tunglefnis í einkaeigu.

Kom heim með grátt duft í glerglasi

En hvernig eignaðist Cicco tunglrykið? Hún segir föður sinn Tom Murray hafa komið heim úr vinnu einn daginn og afhent sér glerglas með gráu dufti. Móðir hennar Dorothy útskýrði þá fyrir henni að þetta kæmi frá Neil Armstrong, fyrsta manninum sem hefði stigið fæti á tunglið. Hún sýndi henni líka eiginhandaáritun Armstrongs aftan á nafnspjaldi föður hennar. „Til Lauru Ann Murray. Gangi þér vel. Neil Armstrong, Apollo 11,“ stóð aftan á spjaldinu.

Cicco segir Armstrong og föður hennar hafa verið saman í leynisamtökum flugmanna, Quiet Birdmen, og að þeir hafi verið nógu góðir félagar til að Armstrong gæfi dóttur hans tunglryk.

Hin 10 ára gamla Cicco skildi hins vegar ekki mikilvægi gjafarinnar. „Ég var ekkert sérstaklega spennt,“ segir hún. Áratugum síðar fann hún glerglasið með tunglrykinu vafið inn í pappír er hún var að fara í gegnum eigur foreldra sinna. Þrátt fyrir að hafa haft áritun Armstrongs innrammaða árum saman hafði hún algjörlega gleymt tunglrykinu.

Það var svo ekki fyrr en Cicco og eiginmaður hennar reyndu að fá innihald glerglassins rannsakað að þau áttuðu sig á vandanum sem tunglrykinu fylgdi.

„Ég reyndi nokkra háskóla. Um leið og þeir komust að því hvað við héldum að þetta væri sögðu þeir að þeir vildu ekkert gera af því að þeir vildu ekki lenda í vanda,“ segir Cicco.

Þjófkennir NASA Armstrong?

Lögfræðingur Cicco segir lögin frá 2012 hafa búið til glufu fyrir einstaklinga að eiga tunglefni, enda séu engin lög sem banni einstaklingum að eiga það.

„Tunglefni er ekki ólöglegur varningur. Það er ekki ólöglegt að eiga það eða hafa í fórum sínum,“ segir hann.

Joseph Gutheinz, sem stóð að fyrstu leynilegu aðgerð NASA að koma höndum yfir stolinn tungstein á tíunda áratug síðustu aldar er á öðru máli.

„Tunglryk og tunglsteinar sem komu með Apollo geimferðunum eru eign bandarískra stjórnvalda nema þau gefi það erlendum stjórnvöldum,“ hefur BBC eftir Gutheinz. „Neil Armstrong hafði ekki leyfi til að gefa tunglsteininn.“

McHugh segir að ef NASA taki þá afstöðu, þá sé stofnunin eiginlega að kalla „eina stærstu hetju bandarískrar sögu þjóf“.

mbl.is
LAND ROVER DISCOVERY 3 S, sjálfsk., disel, 7 manna
Til sölu LAND ROVER DISCOVERY 3 S, sjálfskiptur, dísel, 7 manna ekinn 204.000 km...
FJÖLNOTAKERRUR _ STURTUKERRUR
Fjölnotakerrur, auðvelt er að koma bílum og vélum uppá, 4 til 6 metra langar. St...
Byggingarstjóri
Byggingarstjóri stebbi_75@hotmail.com sími 659 5648...
Nissan Qashqai 2018
https://bland.is/classified/entry.aspx?classifiedId=3933554 NISSAN QASHQAI, 4...