Milljónir Apple-tölva gætu verið í hættu

AFP

Viðvörun hefur verið send til eigenda tölva frá bandaríska tölvuframleiðandanum Apple þess efnis að þeir kunni að vera varnarlausir gagnvart tölvuþrjótum eftir að sérfræðingur á sviði tölvuöryggis fann galla sem verið hefur til staðar í vélbúnaðinum.

Fram kemur á fréttavef Daily Telegraph að gallinn gæti gert tölvuþrjótum kleift að setja upp forrit á tölvum og komast þannig yfir viðkvæmar persónulegar og fjárhagslegar upplýsingar með því að blekkja öryggisforrit til þess að halda að það sé öruggt.

Þar með gætu tölvuþrjótar komist framhjá vírusvörnum með því að telja þeim trú um að forritið sé á vegum Apple og verið til staðar í tölvum árum saman án þess að eigandurnir yrðu þess varir. 

Sérfræðingur hjá tölvufyrirtækinu Okta í San Francisco í Bandaríkjunum, Josh Pitts, fann gallann. Haft er eftir honum í fréttinni að ekki liggi fyrir hvort einhver hafi nýtt sér gallann til þessa en hins vegar gætu milljónir tölva verið í hættu.

Pitts segir að uppgötvunin ylli sérstökum áhyggjum þar sem fólki hefði tilhneigingu til þess að treysta Apple. Gallann væri að finna bæði í nýrri útgáfum af stýrikerfinum á tölvum frá Apple eins og macOS og eldri útgáfum eins og OS X.

Haft er eftir öryggisstjóra Okta, Yassir Abousselham, að ef einhver nýtti sér gallann með þessum hætti gæti hann fengið aðgang að öllum gögnum á viðkomandi tölvum. Þegar inn væri komið væru engin takmörk fyrir því hvaða skaða væri hægt að valda.

Dagblaðið fékk ekki viðbrögð frá Apple við málinu en í svari frá Apple til Okta segir að sökin liggi hjá þriðju aðilum eins og Google og Facebook. Gallar í forritun þeirra opnaði dyrnar í þessum efnum. 

Rannsóknastjóri Okta, Matias Brutti, segir það rétt að sökin lægi ekki hjá Apple en hins vegar væri ferlið sem þriðju aðilar þyrftu að fylgja við umrædda forritun flókið og leiðbeningar í þeim efnum þyrftu að vera skýrari til þess að forðast slík mistök.

mbl.is
Sumarhús við gullna hringinn..
- Gisting fyrir 5-6, leiksvæði og stutt að Geysi, Flúðum og Gullfossi. Velkomin....
Leiga, herb. hús, við Gullna hringinn..
Studio herb. með sérbaði og eldunaraðstöðu, hlýleg og kósí, 5 mínútur frá Gey...
NUDD- LÁTTU DEKRA VIÐ ÞIG.
HEIT OLIA OG STEINAR- RÓAR HUGANN OG GEFUR BÆTTA LÍÐAN. tÍMAPANTANIR SIMI 8...
Bolir o.fl.
Tískuverslunin Smart Grímsbæ/Bústaðavegi Bolir kr. 3.990 Peysa kr. 4.990 Buxur k...