Verðlaunaður fyrir framúrskarandi rannsóknir

Sigurður Yngvi Kristinsson hlaut í gær verðlaun fyrir framúrskarandi rannsóknir …
Sigurður Yngvi Kristinsson hlaut í gær verðlaun fyrir framúrskarandi rannsóknir á sviði mergæxla. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Sigurður Yngvi Kristinson, prófessor í blóðsjúkdómum við læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur á Landspítala Íslands, hlaut í gær verðlaun fyrir framúrskarandi rannsóknir á sviði mergæxla.

Verðlaunin voru afhent af Alþjóðamergæxlissamtökunum sem eru samtök lækna og vísindamanna sem leita að lækningu á mergæxli, sem er ólæknandi sjúkdómur.

Verðlaunin eru kennd við Brian Durie, stjórnarformann Alþjóðamergæxlissamtakanna og frumkvöðul í meðferð krabbameina hjá Cedar-Sinai-meðferðarstöðinni í Los Angeles. Þau voru afhent í fyrsta skipti í gær við hátíðlega athöfn í Stokkhólmi.

„Þetta er gríðarlega mikill heiður. Þetta er viðurkenning á því sem ég og rannsóknarteymið mitt höfum áorkað og setur okkur á kortið,“ sagði Sigurður Yngvi í samtali við mbl.is.

Sigurður Yngvi Kristinsson ásamt hluta af rannsóknarhópnum sem hann fer …
Sigurður Yngvi Kristinsson ásamt hluta af rannsóknarhópnum sem hann fer fyrir. Blóðskimum til bjargar – þjóðarátaki gegn mergæxlum. Ljósmynd/Aðsend

Sigurður Yngvi fer fyrir hópi vísindamanna og nemenda við Háskóla Íslands og Landspítala sem rannsakar forstig mergæxla og framvindu sjúkdómsins, segir í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

„Við sjáum nú þegar að rannsóknin mun veita gríðarlega miklar upplýsingar um forstig mergæxla og almennt um mergæxli. Aldrei hefur verið framkvæmd stærri eða ítarlegri rannsókn hjá heilli þjóð,“ er haft eftir Sigurði Yngva í tilkynningunni.

„Vísindi snúast um samstarf en ekki einstaklingsframlag. Ég er svo ótrúlega heppinn að vinna með frábærum vísindamönnum í rannsóknarhópi mínum sem og öðrum framúrskarandi vísindamönnum hérlendis og út um allan heim. Þessi verðlaun eru hvatning fyrir okkur að halda áfram,“ er einnig haft eftir Sigurði Yngva í tilkynningunni.

Sigurður Yngvi segir í samtali við mbl.is að rannsóknin snúi að því að skima fyrir forstigi mergæxlis. Í framhaldi skimunar hittir rannsóknarteymið þá einstaklinga sem greinast með forstig mergæxlis eða mergæxli og fylgir þeim eftir, rannsakar og meðhöndlar eftir atvikum.

„Aðal- og eina markmið Alþjóðamergæxlissamtakanna er að finna lækningu við mergæxli og samtökin telja að þetta sé ein leið til að skima og greina sjúkdóminn fyrr í því skyni að meðhöndla hann og mögulega lækna hann,“ segir Sigurður Yngvi jafnframt við fréttastofu mbl.is.

Sigurður Yngvi með Brian Durie (t.v.), Vincent Rajkumar og Susie …
Sigurður Yngvi með Brian Durie (t.v.), Vincent Rajkumar og Susie Novis Durie. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert