IBM þróar vél sem rökræðir við fólk

IBM er brautryðjandi í þróun gervigreindarraftækja.
IBM er brautryðjandi í þróun gervigreindarraftækja. AFP

Bandaríski raftækjaframleiðandinn IBM er nú talinn hafa umbylt gervigreind raftækja, en með nýrri tækni hefur fyrirtækið þróað vélmenni sem getur hlustað, ályktað og rökrætt við fólk út frá safni upplýsinga. Þetta kemur fram í frétt BBC um málið.

IBM kynnti vélina á dögunum og var starfsmanni fyrirtækisins, Noa Ovadia, stillt upp gegn vélinni í kappræðum. Ovadia var ísraelskur rökræðumeistari árið 2016 og hóf störf hjá IBM fyrir nokkrum mánuðum við þróun vélarinnar.

Vélin færði betri rök fyrir máli sínu

Vélin sótti upplýsingar úr safni um hundrað milljóna skráa, aðallega dagblaðagreinum og vísindalegum greinum, til þess að mynda svar sitt við efni sem hún hafði ekki verið prófuð í fyrirfram. Frammistaða vélarinnar var að vísu ekki alveg gallalaus, en áhorfendur voru afar skýrir í niðurstöðu sinni um það hvor hefði staðið sig betur, vélin eða starfsmaður IBM. Áhorfendur voru sammála um að manneskjurnar hefðu skilað svörum sínum betur, en að vélin hefði fært betri rök fyrir máli sínu.

Niðurstaðan er í samræmi við markmið vélarinnar, að gera fólki kleift að taka ákvarðanir hratt og á grundvelli fleiri gagna en hefur áður verið mögulegt.

„Ég held að fyrr eða síðar, þegar vélin mun geta gert það sem við gerum, nema betur, verði vélin stórkostleg fyrir allt mannkynið til þess að það geti tekið upplýstar ákvarðanir. Fyrir upplýstar kosningar, fyrir upplýst allt,“ sagði Ovadia.

Þýðingarmikið skref

Vélin rökræddi annars vegar um það hvort auka ætti við opinbera styrki til geimrannsókna og hins vegar um það hvort fjárfesta ætti enn frekar í fjarlækningum.

Þegar Ovadia færði rök fyrir því að fremur ætti að verja fjármunum til þarfari verkefna en geimrannsókna sagði vélin á móti: „Það er auðvelt að segja að það séu mikilvægari hlutir til þess að verja fjármunum í og ég rengi það ekki. Enginn heldur því fram að það sé eina verkefnið á útgjaldalistanum, en það er ekki umræðuefnið. Þar sem niðurgreiðsla á geimrannsóknum myndi auðsjáanlega gagnast samfélaginu, held ég því fram að þetta sé verkefni sem ríkisstjórnin ætti að fylgja eftir.“

Prófessor við Háskólann í Dundee, Chris Reed, lýsti kynningunni á vélinni sem tilkomumiklu tækniverki. „Þetta er þýðingarmikið skref fram á við. Það sem heillaði mig var samsetning skránna. Að geta tæklað eitthvað eins og rökræður er ekki svo auðvelt að gera með einu skoti. Þú þarft að geta leyst mörg vandamál og svo tekið öll vandamálin saman í skipulagðri niðurstöðu.“ 

mbl.is