Vill draga ísjaka til Suður-Afríku

Áætlunin er jafnbrjálæðisleg og ástandið er orðið þrungið örvæntingu: Að draga ísjaka frá Suðurskautslandinu til Höfðaborgar í Suður-Afríku til að afla fersks vatns fyrir borgarbúa sem hafa þolað langvarandi þurrka og vatnsskort.

Fyrr á þessu ári munaði minnstu að borgaryfirvöld í Höfðaborg yrðu að loka fyrir allt vatnsveitukerfi sitt vegna gríðarlegra og fordæmislausra þurrka. Vatn var skammtað og fólk stóð í röðum við brunna til að sækja sér neysluvatn.

Með samstilltu átaki borgarbúa tókst að spara vatnið og er haustrigningar hófust bjargaðist málið fyrir horn, eins og sagt er. 

Vandi sem kominn er til að vera

Óttast er að sagan endurtaki sig í suðurafrísku borginni á næsta ári og svo árið þar á eftir og þar fram eftir götunum.

„Þessi hugmynd hljómar brjálæðislega,“ segir frumkvöðullinn Nick Sloane sem er sá sem lagt hefur drög að hugmyndinni um að draga ísjaka að borginni. „En ef þú skoðar málið nánar þá er þetta ekki svo brjálæðislegt.“

Sloane hefur lagt til að hylja ísjaka með einangrandi efni til að koma í veg fyrir að hann bráðni og nota svo stórt skip til að draga hann 2.000 kílómetra leið að Höfðaborg er hafstraumar eru hagstæðir. 

Ísjakinn yrði sérvalinn, um einn kílómetri að lengd og um 500 metrar á breidd. Þá yrði hann um 250 metra þykkur og yfirborð hans yrði að vera nokkuð slétt. 

Vatni sem bráðnar yrði svo hægt að safna saman á hverjum degi með ákveðnum búnaði og gert er ráð fyrir að daglega fengjust um 150 milljónir lítra af vatni í heilt ár. 

Hreinasta ferskvatn heims

Hætt er við að litið verði á hugmynd Sloanes sem draumóra. En hinn 56 ára gamli ævintýramaður er þekktur fyrir að taka sér fyrir hendur verkefni sem þykja óraunhæf. Þannig tókst honum að koma skemmtiferðaskipinu Costa Concorida aftur á flot eftir að það hafði strandað fyrir utan eyjuna Giglio árið 2012. 32 létust í því slysi og var það verkefni að koma því af strandstað flókið og að margra viti talið ómögulegt. 

„Ísjakar geyma hreinasta ferskvatn jarðar,“ segir hann. „Þúsundir þeirra brotna [frá íshellunni] á hverju ári. Móðir náttúra hefur verið að stríða mannkyninu með þessu í langan tíma og sagt: Þetta er þarna.“

Gríðarlega dýrt

Sloane telur að verkefnið myndi kosta um 100 milljónir dala, um 11 milljarða króna, og taka um þrjá mánuði. Þá myndi kostnaður við að afla vatnsins úr jakanum vera um 6 milljarðar króna til viðbótar á því ári sem jakinn myndi duga til ferskvatnsöflunar. 

„Í Rússlandi hafa þeir ýtt [ísjökum] frá olíuborpöllum en aðeins litlum sem eru um hálf milljón tonna á þyngd. Hér erum við að tala um [jaka] sem er um 100 milljónir tonna,“ segir Sloane.

Til að takast á við vatnsskortinn hafa yfirvöld í Höfðaborg gripið til ýmissa ráða, m.a. að setja upp sjóhreinsistöðvar og setja strangar reglur um vatnsnotkun. 

Ekki er enn ljóst hvort Sloane takist að selja þeim hugmyndina um ísjakaverkefnið.

„Á þessu stigi virðist vera ódýrara að [bora eftir] grunnvatni eða setja upp hreinsistöðvar, eða að minnsta kosti álíka dýrt,“ segir Ian Neilson, varaborgarstjóri Höfðaborgar. 

Dreginn í kaldan sjó

Þá hefur ekki verið útfært að fullu hvernig vatninu úr ísjakanum yrði komið inn í vatnsveitukerfi borgarinnar. 

Þá þykir óvíst í hvaða ástandi ísjakinn yrði eftir að hafa verið dreginn 2.000 kílómetra leið. Sloane segir að best yrði að draga hann um 150 kílómetra norður af Höfðaborg til St. Helena-flóa þar sem kaldur hafstraumur heldur sjónum rétt ofan við frostmark.

Þegar ísjakinn yrði kominn þangað væri hægt að festa hann niður í braut sem áður var notuð til að setja kafbáta á flot, að sögn Sloanes.

Þegar ísjakinn fer að bráðna yrði vatninu safnað saman á hverju degi og því dælt í dælubíla og ekið til Höfðaborgar. „Þetta leysir ekki vanda Höfðaborgar en þetta myndi svara um 20-30% af ársþörfinni.“

Galið en raunhæft

En sumum finnst verkefnið alveg galið – en þó raunhæft.

„Þetta verkefni er galið – það er engin spurning,“ segir norski jöklafræðingurinn Olav Orheim sem vinnur að svipuðu verkefni í Sádi-Arabíu. Aldrei hafi svo stór ísjaki verið tekinn í tog. Óvíst sé að hann myndi þola þá miklu hafstrauma sem yrðu á leið hans frá Suðurskautslandinu til Suður-Afríku. Hann gæti hreinlega brotnað í sundur á ferðalaginu.

En, segir Orheim, þetta er þó ekki lengur óraunhæft „því við vitum svo miklu meira núna en þegar við hófum svona rannsóknir fyrir fjórum áratugum“.

Hann segir verkefnið áhættusamt en að það gæti skilað góðum hagnaði að endingu.

Wolfgang Foerg, framkvæmdastjóri svissneska fyrirtækisins Water Vision, vinnur með Sloane að þróun verkefnisins. Hann segir að hér sé á ferðinni verkefni sem gæti leyst vanda sem stöðugt er að aukast. Þurrkar séu að verða algengari á ákveðnum heimssvæðum. 

Sloane segist tilbúinn. Hann bíði nú eftir því að fá grænt ljós. „Ef þeir segja okkur að hefjast handa núna þá getur jakinn verið kominn hingað fyrir páska á næsta ári.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert