Kynna grundvöll fyrir interneti hlutanna

Höfuðstöðvar Vodafone, og móðurfélagsins Sýnar, eru að Suðurlandsbraut.
Höfuðstöðvar Vodafone, og móðurfélagsins Sýnar, eru að Suðurlandsbraut. Ljósmynd/Aðsend

Vodafone á Íslandi hefur gangsett fyrstu sendana sem byggja á fimmtu kynslóð farsímakerfa, það er 5G. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sýn hf., móðurfélags Vodafone. Í samtali við mbl.is segir Kjartan Briem, framkvæmdastjóri tæknisviðs Sýnar, að tæknin horfi sérstaklega til internets hlutanna (e. Internet of Things).

Léttbandstæknin (e. narrowband) hefur þá eiginleika að orkunotkun er einstaklega lítil. „Þú ert að senda mjög lítið af göfnum í einu en þú notar merkið betur og flytur minna af upplýsingum.“ Fyrir vikuð verður ódýrara að framleiða tæki sem geta tengst interneti hlutanna og átt samskipti við önnur tæki. Talað sé um að framleiðsla slíkra tækja muni í framtíðinni ekki þurfa að kosta meira 4-5 evrur.

Tæknin er ekki, enn um sinn, hugsuð farsímum enda styðja engir farsímar við hana. Þó má reikna með að fyrstu farsímasendarnir komi á markað 2020 á svipuðum tíma.

Hin nýja tækni opnar á að mun fleiri tæki séu nettengd á þennan hátt og sér Kjartan fyrir sér að staðsetningarbúnaður geti til dæmis orðið staðalbúnaður á hjólum. Í maí flutti Kjartan fyrirlestur á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna þar sem mikilvæg verkefni varðandi snjallvæðingu borga voru kynnt. 

Sýndi hann meðal annars hvernig hægt er að snjallvæða bílastæði og ljósastaura. Þannig mætti stýra ljósstyrk eftir því hvað er í nágrenni staursins, garður, leiksvæði eða íbúðabyggð. „Neyðarlínan gæti til dæmis lýst upp ljósastaura á slysstað til að bæta vinnuaðstæður.“

Þá er drægni 5G mun betri en 4G-senda og er sérstaklega sterk gegnum veggi og kjallara, sem hafa stundum liðið fyrir slæmt samband.

Kjartan ásamt forsætisráðherrum Norðurlandanna.
Kjartan ásamt forsætisráðherrum Norðurlandanna. Ljósmynd/Sýn
mbl.is