Facebook sektað í Bretlandi

Facebook hefur 28 daga til að ákveða hvort fyrirtækið muni …
Facebook hefur 28 daga til að ákveða hvort fyrirtækið muni taka sektinni eða andmæla henni fyrir breskum dómstólum. AFP

Bresk eftirlitsstofnun um upplýsingamál (Information Commisioners Office, ICO) ætlar að leggja 500 þúsund punda sekt á samskiptamiðilinn Facebook vegna Cambrigde Analytica-skandalsins. Það yrði hæsta sekt þessarar tegundar nokkru sinni í Bretlandi, að því er BBC greinir frá.

Facebook hefur 28 daga til að ákveða hvort það muni taka sektinni eða andmæla henni fyrir breskum dómstólum. ICO segir að Facebook hafi ekki gert nóg til þess að útskýra fyrir notendum sínum hvernig hægt sé að nýta persónuupplýsingar um þá, né gefið þeim næga stjórn yfir því hvernig viðkvæmar persónuupplýsingar sem þeir láta samskiptamiðlinum í té væru notaðar.

Af þessum sökum segir ICO að Facebook hafi brotið bresk gagnaverndarlög (e. Data Protection Act) í tveimur liðum.

Erin Egan, sem er yfir persónuverndarmálum hjá Facebook, segir í svari við þessum fregnum að fyrirtækið hefði, eins og það hafi sagt áður, átt að gera meira til þess að grípa til aðgerða vegna ábendinga sem bárust árið 2015 um að ekki væri allt með felldu varðandi notkun Cambridge Analytica á gögnum frá Facebook.

Sömuleiðis segist ICO ætla að lögsækja móðurfyrirtæki Cambridge Analytica, SCL Election. ICO segir einnig að fyrirtækið Aggregate IQ, sem vann fyrir herferð Brexit-sinna árið 2016, verði að hætta að vinna með persónuupplýsingar breskra borgara.

Frétt BBC um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert