Brenndu óvart vísbendingar um líf á Mars

Curiosity sigurreifur eftir fundinn á lífrænu efnunum í þriggja milljarða ...
Curiosity sigurreifur eftir fundinn á lífrænu efnunum í þriggja milljarða ára setbergi 7. júní AFP

Lífrænum sameindum á Mars gæti hafa verið eytt óvart í leiðangri bandarísku geimferðastofnunarinnar, Nasa, fyrir 40 árum. Þetta kemur fram í grein í enska vísindatímaritinu New Scientist.

Árið 1967 lentu tvö geimför Nasa, Víkingarnir, á rauðu plánetunni og tóku þátt í fyrstu leitinni að lífrænum efnum en án árangurs. Niðurstaðan kom vísindamönnum í opna skjöldu. Hvernig mátti vera að ekkert lífrænt efni væri að finna á plánetunni? „Þetta var algjörlega óvænt og í mótsögn við það sem við vissum,“ sagði Chris McKay stjörnufræðingur hjá NASA í samtali við New Scientist.

Það var ekki fyrr en í síðasta mánuði, 7. júní nánar tiltekið, sem vísindamenn fundu loks þar sem leitað hefur verið að æ síðan. Finnandinn var Curiosity-vélmennið sem boraði í setlög frá fjórum svæðum í Gale-gýgnum. Setlögin hafa myndast á milljörðum ára frá silti sem hefur safnast saman á botni gígsins, þar sem talið er að hafi verið vatn.

Lífrænar sameindir innihalda kolefni og vetni, en geta einnig innihaldið súrefni, nitur og önnur efni. Þær eru byggingareining lífs en geta myndast við ólífræn ferli og er fundurinn því ekki endilega til marks um að lífverur séu eða hafi nokkurn tímann verið á Mars, að því er fram kemur á heimasíðu Nasa.

Perklórat er notað í flugelda.
Perklórat er notað í flugelda. AFP

Hvað fór úrskeiðis?

Aftur að aðalspurningunni. Möguleg skýring á því hvers vegna ekkert lífrænt efni fannst í leiðangrinum fyrir rúmum 40 árum skaut upp kollinum árið 2008 þegar Fönix-geimflaugin fann efnasambandið perklórat (ClO4) á plánetunni. Perklórat er salt sem, við rétt hitastig, er eldfimt og er meðal annars notað í flugelda á jörðu niðri.

Í leit sinni að lífrænum efnum árið 1976 hituðu Víkingageimför NASA jarðveginn á Mars með sérstökum gasmassagreinum. Vísindamennirnir voru ekki meðvitaðir um að perklórat væri í jarðveginum, en vegna þess hefðu öll lífræn efni brunnið upp, það er að segja ef þau voru til staðar.

Uppgötvun perklóratsins endurvakti sannfæringu vísindamanna um að þeir hefðu getað fundið lífræn efnasambönd á Mars. „Þú færð nýja innsýn og áttar þig á að allt sem þú hélst var rangt,“ segir McKay.

Hvort líf væri fundið á Mars í dag ef vísindamenn hefðu vitað af perklóratinu skal þó ósagt látið.

Space.com

mbl.is