Stórri spurningu um rétt foreldra svarað

AFP

Þýskur dómstóll mun kveða upp úrskurð í dag um stafræna arfleifð Facebook-notenda eða réttara sagt um örlög persónulegra upplýsinga þeirra eftir andlát. Málið snýr að upplýsingum á Facebook og foreldrum sem misstu dóttur sína á unglingsaldri árið 2012.

Stúlkan, sem var fimmtán ára gömul, lést er hún varð fyrir neðanjarðarlest árið 2012. Foreldrar hennar höfðu í kjölfarið samband við Facebook og óskuðu eftir því að fá aðgang að persónulegum upplýsingum hennar á samskiptamiðlinum, svo sem skilaboðum, í þeirri von að það myndi leiða í ljós hvort dóttir þeirra hafi látist af slysförum eða framið sjálfsvíg. 

Eftir að Facebook hafnaði ósk þeirra fóru foreldrarnir með málið fyrir dóm og höfðu betur árið 2015. En áfrýjunardómstóll í Berlín hafnaði niðurstöðunni og taldi að þau ættu ekki að fá aðgang að gagnaskrá stúlkunnar. 

Í dag mun æðsti dómstóll Þýskalands, stjórnskipunardómstóllinn í Karlsruhe, kveða upp dóm í málinu.

Á sama tíma og foreldrarnir vilja fá úr því skorið hvort dóttir þeirra hafi látist af slysförum vonast þeir til þess að gögn hennar á Facebook leiði í ljós hvort lestarstjórinn eigi rétt á miskabótum, sem hann gæti átt rétt á ef um sjálfsvíg var að ræða.

Foreldrarnir segja að textinn sem ritaður er á Facebook-síðu dóttur þeirra eigi með lögformlegum hætti að vera eins og dagbók eða bréf sem ástvinir eiga rétt á að fá í hendurnar eftir andlát ástvinar. Ekki síst ef um erfðamál er að ræða.

Dómarar í héraðsdómi í Berlín féllust á þetta, að texti á Facebook félli undir erfðalög og að foreldrar barns hafi alltaf rétt á að vita við hvern barn þeirra átti í samskiptum sem og hvenær. 

Niðurstaða áfrýjunardómstóls í Berlín árið 2017 var Facebook í hag, að friðhelgi í fjarskiptum sé tryggð í stjórnarskrá Þýskalands. Jafnframt staðfesti dómurinn skilning Facebook á friðhelgi þeirra sem áttu í samskiptum við stúlkuna á Facebook. Að þeir nytu friðhelgi í stafrænum einkaskilaboðum.

Eins og staðan er í dag hafa ættingjar aðeins val um tvennt þegar Facebook-notandi deyr. Í fyrsta lagi að breyta síðunni í minningarsíðu og heimila fólki að rita kveðjur þar inn án þess að fá aðgang að einkaskilaboðum viðkomandi. Hins vegar að fylla út beiðni um að Facebook eyði síðu og upplýsingum frá hinum látna.

Árið 2016 barðist Apple gegn tilraun bandarísku alríkislögreglunnar til þess að fá heimild til þess að opna læstan iPhone-snjallsíma sem var í eigu manneskju sem tók þátt í að fremja fjöldamorð í San Bernardino í Kaliforníu í desember 2015. 

En Apple tók aftur á móti betur í beiðni ítalsks föður sem árið 2016 óskaði eftir því að læstur iPhone-snjallsími barns sem lést úr krabbameini yrði opnaður. Í því tilviki heimilaði Apple að síminn yrði opnaður og faðirinn fengi afhentar minningar barnsins og myndir úr símanum.

mbl.is