Facebook rannsakar annað gagnafyrirtæki

AFP

Facebook hefur hætt samstarfi við bandaríska gagna- og greiningarfyrirtækið Crimson Hexagon á meðan rannsakað er hvort að það hafi safnað og deilt upplýsingum um notendur samfélagsmiðilsins.

Crimson Hexagon er með höfuðstöðvar sínar í Boston. Það býður viðskiptavinum sínum neytendaupplýsingar og hefur gert samninga við opinbera aðila og stofnanir víða um heim. 

Facebook segist nú vera að skoða hvort að þessir viðskiptasamningar brjóti gegn reglum miðilsins um eftirlit.

Í frétt BBC segir að enn sem komið er hafi engar sannanir fundist fyrir því að fyrirtækið hafi deilt upplýsingum um notendur Facebook með þriðja aðila. 

Í frétt Wall Street Journal segir að Crimson Hexagon hafi gert samninga, m.a. við aðila sem tengjast ríkisstjórn Rússlands, um greiningu á gögnum sem finna má á Facebook. Einnig hafi sambærilegir samningar verið gerðir við bandarískar stofnanir.

Í mars í fyrra setti Facebook reglur sem banna að upplýsingar um notendur samfélagsmiðilsins yrðu notaðar til eftirlits stjórnvalda. 

Þær upplýsingar sem Crimson Hexagon notar í greiningum sínum eru fengnar úr yfir einni trilljón færslna á samfélagsmiðlum á borð við Facebook, Twitter og Instagram. Fyrirtækið hefur sagst geta greint um 160 milljónir mynda á hverjum degi sem birtar eru á þessum miðlum.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert