Gagnaveitan stofnfélagi í samtökum ljósleiðarafyrirtækja

Stjórnendur fyrirtækjanna undirrituðu stofnsamning í Róm nú í vikunni.
Stjórnendur fyrirtækjanna undirrituðu stofnsamning í Róm nú í vikunni. Ljósmynd/Aðsend

Gagnaveita Reykjavíkur er meðal stofnenda nýrra alþjóðlegra samtaka ljósleiðarafyrirtækja sem vilja sjá gígabita ljósleiðara alla leið til heimila og fyrirtækja og tryggja valkosti í öflugri fjarskiptaþjónustu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Gagnaveitunni.

Aðrir stofnendur eru CityFibre í Bretlandi, Deutsche Glasfaser í Þýskalandi, Open Fiber á Ítalíu og SIRO á Írlandi og eiga fyrirtækin eiga það sameiginlegt að reka opin ljósleiðarakerfi og vera eingöngu á heildsölumarkaði.

 „Okkar hlutverk hefur verið að leiða ljósleiðaravæðingu íslenskra heimila þannig að nú mælist tengihraði þeirra einn sá mesti í heimi. Þessi nýju samtök heildsölufyrirtækja með opin ljósleiðaranet styðja við öfluga samkeppni í fjarskiptum, sem skipta heimilin sífellt meira máli,“ er haft eftir Erling Frey Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Gagnaveitu Reykjavíkur í tilkynningunni.

Stjórnendur fyrirtækjanna undirrituðu stofnsamning í Róm nú í vikunni að viðstöddum þeim Johannes Gungl, formanni BEREC, sem eru samtök eftirlitsaðila með fjarskiptamörkuðum í Evrópu, og Erzebet Fitori. Hún er formaður FTTH Council Europe, sem er evrópskur samstarfsvettvangur um ljósleiðaratengingu alla leið til heimila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert