Lengsti „blóðmáni“ aldarinnar

AFP

Almyrkvi sem mun standa yfir milli klukkan 19:30 og 21:13 næsta föstudag verður sá lengsti á þessari öld. Myrkvinn hefur verið kallaður blóðmáni vegna litarins sem tunglið tekur á sig.

„Nafnið vísar til litarins sem tunglið tekur á sig þegar það er almyrkvað. Þá verður það rauðleitt vegna þess að ljós frá öllum sólarupprásum og sólsetrum á jörðinni lýsa upp tunglið,“ segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefjarins, þegar hann reynir að útskýra fyrirbærið fyrir blaðamanni mbl.is.

Blóðmáninn verður þó ekki sýnilegur frá Íslandi heldur eingöngu frá Afríku og hluta af Asíu. Næsti almyrkvi sem verður sýnilegur frá Íslandi verður 21. janúar 2019. Það verður líka blóðmáni, segir Sævar sem hlakkar mikið til.

Fræðast má meira um tunglmyrkva á Stjörnufræðivefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert