Vísbendingar um „stöðuvatn“ á Mars

Mars er oft kölluð rauða plánetan.
Mars er oft kölluð rauða plánetan. AFP

Vísindamenn hafa fundið vísbendingar um „stöðuvatn“ á plánetunni Mars. Vatnið er undir íshellu á suðurpól plánetunnar. Áður hafa fundist vísbendingar um mögulegt vatn í fljótandi formi á plánetunni en þetta er í fyrsta skipti sem ummerki um langvarandi vökvasöfnun finnst. BBC greinir frá þessu á vef sínum.

Vatnið var uppgötvað með radartækinu Marsis sem er staðsett í gervitungli á sporbaug um Mars.

„Þetta er líklega ekki mjög stórt stöðuvatn,“ segir Roberto Orosei, prófessor hjá ítölsku geimvísindastofnuninni.

Marsis gat ekki greint hversu djúpt stöðuvatnið er en það er talið vera að minnsta kosti um einn metri á dýpt.

„Við höfum vitað lengi að líf eins og við þekkjum það getur ekki þrifist á yfirborði Mars, svo leitin á Mars beinist nú að því sem er undir yfirborðinu,“ segir dr. Manish Patel frá Open University.

„Við erum ekki nær því að finna líf á Mars en núna vitum við hvar við eigum að leita,“ bætir dr. Patel við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert