Banvænar hitabylgjur gætu orðið venjan

Skógareldar í Þýskalandi, nærri Potsdam, í gær.
Skógareldar í Þýskalandi, nærri Potsdam, í gær. AFP

Svæsnar hitabylgjur, eins og sú sem knúði áfram hina mannskæðu skógarelda í Grikklandi, munu verða sífellt tíðari á komandi árum og áratugum vegna loftslagsbreytinga, en við þessu vara sérfræðingar.

Undanfarnar vikur hafa hitamet verið slegin víða á norðurhveli jarðar, allt frá Noregi og austur til Japans, þar sem tugir manna hafa látið lífið vegna hitans.

Svækjusumur þykja eðlileg í Grikklandi, þar sem þó hafa 82 látist í sumar, í verstu skógareldum í sögu landsins. En í Norður-Evrópu hefur hitabylgja þessa sumars verið í meira lagi afbrigðileg.

Alþjóðaveðurfræðistofnunin spáir því að hitastig verði áfram yfir meðallagi allt frá Írlandi yfir til Skandinavíu og Eystrasaltsins fram í byrjun ágústmánaðar. Yfirstandandi júlímánuður í Svíþjóð hefur verið sá heitasti í 250 ár, þar sem þurrk­ar og skógar­eld­ar hafa vik­um sam­an eyðilagt mik­il­væg beiti­lönd hrein­dýra sama.

„Þetta er hrikalegt“

Yfirvöld í Japan segja hitabylgjuna þar í landi vera án fordæma, á sama tíma og hitinn í Kaliforníu hefur náð allt að 48,9 gráðum.

„Venjulega höfum við hitabylgjur á einum hluta plánetunnar,“ segir Anders Levermann, prófessor við Potsdam-stofnunina í loftslagsrannsóknum.

„En núna sjáum við allt norðurhvelið í miklum hita – þetta er hrikalegt.“

Brugðið er á ýmis ráð til að kæla sig í ...
Brugðið er á ýmis ráð til að kæla sig í hitanum sem gengið hefur yfir Evrópu. AFP

Eiga loftslagsbreytingar sökina?

„Hvern einstakan atburð er mjög erfitt að rekja beint til athafna mannsins,“ segir franski loftslagssérfræðingurinn Jean Jouzel í samtali við fréttaveitu AFP.

En hitastig síðustu vikna „eru í samræmi við þær afleiðingar sem við búumst við af völdum útblásturs gróðurhúsalofttegunda,“ segir Elena Manaenkova, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar.

Síðustu þrjú ár hafa verið þau heitustu frá því mælingar hófust. Mikilvægasta spurningin er að sögn Levermann: „Munum við sjá þessi hitastig oftar ef við drögum ekki úr losun kolefnis? Og við þessari spurningu getum við sagt já.“

Pakistanar kæla sig niður í 44 gráðu hita fyrr á ...
Pakistanar kæla sig niður í 44 gráðu hita fyrr á árinu. AFP

Við hverju má búast á næstu áratugum?

Milliríkjanefnd SÞ um loftslagsbreytingar varaði árið 2012 við því að reiknilíkön gerðu ráð fyrir sífellt öfgakenndara veðurfari á komandi áratugum. Og jafnvel þótt ríki heimsins nái að takmarka hækkun hitastigs við tvær gráður umfram það sem tíðkaðist fyrir iðnbyltinguna, eins og samið var um á loftslagsráðstefnunni í París árið 2015, vara sérfræðingar við verri þurrkum, hitabylgjum, flóðum og fellibyljum, og að þessara fyrirbæra muni verða vart víðar.

Í niðurstöðum rannsóknar, sem birtar voru á síðasta ári í vísindaritinu Nature Climate Change, var varað við því að jafnvel þótt haldið væri við viðmið loftslagsráðstefnunnar myndi um helmingur mannkyns vera viðkvæmur fyrir banvænum hitabylgjum árið 2100, í samanburði við 30% mannkyns um þessar mundir.

„Á hverju ári munum við sjá hitamet slegin allt frá Rússlandi til Frakklands og austur til Japan,“ segir Jouzel. Hitabylgjur eins og sú, sem olli dauðsföllum sjötíu þúsund manna í Evrópu árið 2003, gætu því orðið venjubundnar eftir árið 2050 eða 2060.

mbl.is
INNSKOTSBORÐ FLÍSAR MEÐ BLÓMAMUNSTRI
ANTIK INNSKOTSBORÐ BLÓMUMSKRÝDD Á 15,000 KR SÍMI 869-2798...
Óskum eftir ömmu/afa sem getur mætt að
Óskum eftir ömmu/afa sem getur mætt að passa, nokkur skipti í mánuði kl. 5 á mor...
Húsaviðgerðir
https://www.husco.is...
GEYMSLUHÚSNÆÐI - BÍLSKÚR
TIL LEIGU TÆPLEGA 30 FM. BÍLSKÚR / GEYMSLUHÚSNÆÐI VIÐ MÓHELLU Í HF. LOKAÐ VAKTAÐ...