Vara við banvænum hitabylgjum

Kona gengur undir sólhlíf í Peking.
Kona gengur undir sólhlíf í Peking. AFP

Vísindamenn vara við því að norðurhluti Kína, sem er eitt þéttbýlasta svæði heims, verði þjakaður af mannskæðum hitabylgjum áður en öldin er úti.

Nýjar rannsóknir bandaríska MIT-háskólans gefa til kynna að ef ekki verði dregið verulega úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda muni loftslagsbreytingar verða til þess að rakar hitabylgjur geri svæðið allt að því óbyggilegt þegar árið 2070.

Frá þessum rannsóknum er greint í ítarlegri frétt á CNN.

Á því svæði sem vísindamennirnir hafa mestar áhyggjur af er höfuðborgina Peking að finna en einnig landbúnaðarsvæði sem eru sérstaklega viðkvæm fyrir loftslagsbreytingum. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar myndi heilbrigt fólk ekki lifa af sex tíma utandyra í hitabylgjum sem þessum.

„Kína losar í dag mest allra landa af gróðurhúsalofttegundum og það gæti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir þjóðina,“ hefur CNN eftir Elfatih Eltahir, prófessor við MIT.

Í svo miklum raka og yfir 35°C hita, eins og myndi fylgja hinum öfgafullu hitabylgjum, getur heilbrigt fólk ekki lifað af utan dyra í meira en sex klukkustundir. Rannsóknir MIT gefa vísbendingar um að verði ekki dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda geti slíkar hitabylgjur skollið á í Norður-Kína nokkrum sinnum á árabilinu 2070-2100.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert