Notkun snjalltækja í kennslustofum leiðir til lægri einkunna

Tillaga um að banna snjallsíma í grunnskólum Reykjavíkurborgar hlaut ekki …
Tillaga um að banna snjallsíma í grunnskólum Reykjavíkurborgar hlaut ekki brautargengi í borgarstjórn fyrr á þessu ári. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Notkun snjallsíma og spjaldtölva í kennslustundum hefur neikvæð áhrif á frammistöðu nemenda í lokaprófum og leiðir til lægri einkunna þegar slík tæki eru notuð í kennslustofum í öðrum en akademískum tilgangi. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem birtist í tímaritinu Educational PsychologyNiðurstaðan kemur ekki á óvart, segir prófessor við Háskóla Íslands.

Rannsóknin er sú fyrsta sem sýnir fram á orsakatengsl milli truflunar frá snjalltækjum í kennslustundum og frammistöðu nemenda í prófum.

Slæm áhrif smita frá sér

Nemendur sem ekki nota snjallsíma eða spjaldtölvu, meðan á kennslu stendur, en eru viðstaddir kennslustundir þar sem notkun slíkra tækja er heimiluð, standa sig að sama skapi verr en þegar þeir læra í umhverfi þar sem notkun slíkra tækja er bönnuð. Það þykir benda til þess að snjallsímar og spjaldtölvur í skólastofum hafi slæm áhrif á kennsluumhverfið í heild en ekki einungis nemendur sem nota slík tæki til afþreyingar meðan á kennslu stendur.

Rannsakendur frá Rutgers-háskóla í Bandaríkjunum framkvæmdu rannsókn í skólastofu þar sem þeir könnuðu hvort það að færa athygli af námsefni og á afþreyingarefni til skiptis hefði áhrif á annars vegar frammistöðu nemenda í einni ákveðinni kennslustund og hins vegar frammistöðu nemenda til lengri tíma.

118 sálfræðinemar í Rutgers-háskólanum tóku þátt í rannsókninni sem stóð yfir í eina skólaönn. Fartölvur, símar, spjaldtölvur og sambærileg tæki voru bönnuð í helming fyrirlestra og leyfð í hinum helmingnum. Í þeim kennslustundum sem tækin voru leyfð, voru nemendur beðnir um að skrá niður hvort þeir hefðu notað tækið meðan á kennslu stóð í afþreyingartilgangi, eða notað það til einhvers annars en að læra.

Áhrif á langtímaminni

Rannsakendur komust að því að notkun snjalltækja í kennslu hafði ekki áhrif á frammistöðu og skilning nemenda í einni ákveðinni kennslustund en einkunnir nemenda til lengri tíma, í lokaprófum í lok annar, versnuðu sem nam 5% eða um 0,5. Rannsóknin sýnir í fyrsta skipti fram á að misskipt athygli í kennslustofu hefur áhrif langtímaminni einstaklinga.

„Niðurstöðurnar ættu að vara nemendur og leiðbeinendur við því að misskipt athygli í kennslustofum hefur lúmsk áhrif á frammistöðu í prófum. Kennarar ættu að upplýsa nemendur um áhrifin — ekki einungis einstaka nemendur heldur alla í kennslustofunni,“ er haft eftir prófessor Arnold Glass, sem stjórnaði rannsókninni.

Kemur ekki á óvart

„Þetta kemur mér alls ekki á óvart, segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is. Fyrir rúmlega áratug byrjaði Baldur á því að biðja nemendur um að nota hvorki síma né tölvur í tímum hjá honum. Hann segir það hafa leitt til miklu meiri þátttöku nemenda í tímum og einnig betri undirbúnings þar sem nemendur viti það fyrir fram að þeir geti ekki skýlt sér bak við tölvuna í tímum.

„Ég var smá hikandi við þetta í byrjun því ég hélt að það yrði stúdentauppreisn,“ segir Baldur en bætir því við að það séu ekki margir sem mótmæla þessari vinnureglu þegar hann kynnir hana fyrir nemendum í upphafi námskeiða. Baldri finnst kennarar vera almennt of feimnir við að biðja nemendur um að sleppa því að nota tölvur eða síma.

Tímarnir eru miklu líflegri, nemendur hafa heilmikið fram að færa og spyrja frekar spurninga. Í kennslukönnunum í lok missera bregst það ekki að nemendur eru yfirleitt mjög ánægðir með þessa breytingu og segja hana hafa leitt til þess að þeir lesi og undirbúi sig ekki einungis betur heldur taki miklu virkari þátt í tímum og eru ánægðari með efnið, útskýrir Baldur.

Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands.
Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands. Mynd/Kristinn Ingvarsson

Ég er meira að segja farinn að leyfa mér það þegar ég kem inn sem gestafyrirlesari í tíma, hvort sem það er erlendis eða hér heima, að biðja nemendur bara um að setja tölvuna og símana til hliðar, segir Baldur og bætir því við að nú sé það orðið þannig í Háskóla Íslands að það þurfi að biðja nemendur sérstaklega um það í fyrsta tíma hvers námskeiðs að nota ekki síma. „Mér finnst það svolítið athyglisvert að það þurfi að byrja á því að fara yfir þessar grundvallarreglur, bætir hann við.

Baldur tekur þó fram að vissulega geti komið upp aðstæður þar sem nauðsynlegt sé að nota tölvur eða síma t.d. þegar það þarf að finna upplýsingar á netinu en það eigi þá að vera markviss tilgangur með því. „Þá er ákveðið markmið með tölvunotkuninni, útskýrir Baldur.

Betra að nota blað og penna

Baldur hefur kynnt sér rannsóknir sem sýna að nemendur muna síður hvað fram fer í tímum þegar þeir nota tölvubúnað.

„Þær rannsóknir sem ég hef kynnt mér sýna að menn muna frekar það sem fer fram í tímum þegar þeir skrifa það niður á blað frekar en að skrifa það í tölvu. Þær sýna að það festist einfaldlega betur í minni nemenda. Ég veit ekki af hverju en þetta sýna rannsóknirnar, segir Baldur.

Þá hefur Baldur einnig kynnt sér rannsóknir sem sýna að nemendur ofmeti hæfni sína þegar kemur að því að gera margt í einu (e. multitask). „Nemendur halda því fram að þeir geti gert margt í einu; fylgjast með í tímum, taka niður glósur og vera á netinu en rannsóknir sýna að þeir geta það í rauninni ekki, segir hann að lokum og hvetur um leið kennara á öllum skólastigum til að prófa þetta fyrirkomulag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert