Sólarkanninn þotinn af stað

Eldflaugin Delta IV Heavy rocket fékk það hlutverk að bera …
Eldflaugin Delta IV Heavy rocket fékk það hlutverk að bera Parker-sólarkannann út í geim. AFP

Bandaríska geimferðastofnunin NASA hefur skotið á loft ómönnuðu könnunarfari sem er ætlað að rannsaka sjálfa sólina. Geimflauginni var skotið frá Kanaveralhöfða í Flórída í morgun, en skotinu hafði verið frestað um sólarhring.

Eldflaugin þaut til himins með Parker-sólarkannann sem fær það hlutverk að fara um fun­heit­an loft­hjúp sól­ar­inn­ar og snerta sólina. Vonir standa til að geimfarið muni leysa ráðgátur varðandi hegðun sólarinnar. 

Parker-sólarkanninn mun þjóta fram hjá Venusi eftir um sex vikur og eiga sinn fyrsta fund með sólinni sex vikum síðar. 

Farið mun fljúga um geim­inn á um 69.200 kíló­metra hraða á klukku­stund og ætti þar með að verða hraðskreiðasta mann­gerða far í sög­unni til þessa.

Teikning sem sýnir geimfarið á leið sinni að sólinni.
Teikning sem sýnir geimfarið á leið sinni að sólinni. AFP

Von­ast er til þess að með rann­sókn­um á kór­ón­unni verði hægt að spá fyr­ir um veður­til­brigði úti í geimn­um, en geim­storm­ar geta til dæm­is raskað orku­stöðvum á jörðinni. Þetta ger­ist þegar sól­vind­ar raska seg­ul­sviði jarðar­inn­ar og dæla orku í geislabelti henn­ar. „Það er gríðarlega mik­il­vægt fyr­ir okk­ur að geta spáð fyr­ir um geim­veður eins og um veðrið á jörðinni,“ sagði sól­fræðing­ur­inn Alex Young hjá NASA í sam­tali við AFP.

Könn­un­ar­geim­farið mun halda sig í um 6,16 millj­ón kíló­metra fjar­lægð frá yf­ir­borði sól­ar­inn­ar en þar mun það vera í um 1.379 gráða hita á sel­síus. Fylgst verður með og mynd­ir tekn­ar af sól­vind­in­um þegar vind­hraðinn rýf­ur hljóðmúr­inn.

Farið er um­lukið sér­stök­um ell­efu senti­metra þykk­um varn­ar­hjúpi úr kol­efna­blöndu sem á að gera því kleift að þola þenn­an gríðarlega hita. Hjúp­ur­inn er hannaður til að stand­ast um fimm­hundruðfald­an hita and­rúms­lofts jarðar­inn­ar og á hann að halda geim­far­inu nærri þægi­leg­um 30 gráða stofu­hita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert