Opportunity týnt í sandbyl á Mars

Tölvuteiknuð mynd af farinu á Mars.
Tölvuteiknuð mynd af farinu á Mars. Ljósmynd/Nasa

Ekkert hefur spurst til Opportunity, litla vélmennis NASA á Mars, í tvo mánuði. Vélmennið, sem hefur ráfað um yfirborð rauðu plánetunnar í fjórtán ár, hvarf sjónum vísindamanna 10. júní í miklum sandbyl.

Opportunity er á stærð við bíl, um 1,5 metra hátt en vegur aðeins 185 kílógrömm. Það lenti á Mars árið 2004 og hefur síðan rannsakað jarðlög á plánetunni auk þess að taka myndir af yfirborði hennar. 400 milljónir bandaríkjadala, um 43 milljarða króna, kostaði að smíða Opportunity og koma því til Mars en vélmennið þykir vel heppnað enda upphaflega aðeins ætlað í 90 daga verkefni.

Curiosity, nýrra Mars-vélmenni Nasa, kann að taka sjálfsmyndir. Þessi sjálfa …
Curiosity, nýrra Mars-vélmenni Nasa, kann að taka sjálfsmyndir. Þessi sjálfa var tekin 20. júní. Ljósmynd/Nasa

Það ferðast með lúsarhraða en hámarkshraði þess er 180 metrar á klukkustund og meðalhraði einungis um fimmtungur af því. Vinna vélmennisins hefur meðal annars orðið grundvöllur að tilgátum vísindamanna um að hermatít sé að finna á plánetunni rauðu og að einhvern tíma hafi vatn fundist á yfirborði.

Í dvala vegna sólarleysis

Opportunity er alvant því að glíma við sandbyli en þeir ganga oft yfir plánetuna þegar hún er sem næst sólu. Vélmennið leggst þá í nokkurs konar dvala til að spara orku enda er það knúið sólarorku, sem er af skornum skammti í óveðrinu.

Síðustu mánuði hefur bylur af sjaldséðri stærðargráðu gengið yfir hnöttinn. Hans varð fyrst vart í um 1.000 kílómetra fjarlægð frá Opportunity 1. júní en tíu dögum síðar hafði hann breitt úr sér og náði yfir 41 milljónar ferkílómetra svæði eða sem samsvarar samanlögðu flatarmáli Norður-Ameríku og Rússlands. Það var þá sem Opportunity sendi sín síðustu boð til jarðar.

Vísindamenn leggja lokahönd á Opportunity fyrir flugtak árið 2004.
Vísindamenn leggja lokahönd á Opportunity fyrir flugtak árið 2004. Ljósmynd/Nasa

„Við vitum ekkert um hann,“ segir Andrew Good, einn vísindamanna Nasa sem rannsakar Mars, í samtali við vísindatímaritið Inverse. „Margir vísindamenn telja að veðrinu gæti slotað um miðjan september og að þá verði himinninn nógu heiður til að Opportunity geti hlaðið batteríin.“

Það er þó ekki þar með sagt að vísindamenn hafi misst sjónar á plánetunni. Hitt Mars-vélmenni Nasa, sem sent var til plánetunnar árið 2011, er enn í fullu fjöri og rannsakar jarðmyndanir hinum megin á hnettinum. Curiosity er búið kjarnorkuknúinni rafhlöðu og hefur sólarleysið því engin áhrif á störf þess. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert