Fundu 3.200 ára gamlan ost

Grafhýsi Pthames þar sem osturinn fannst er á Saqqara-greftrunarsvæðinu nálægt …
Grafhýsi Pthames þar sem osturinn fannst er á Saqqara-greftrunarsvæðinu nálægt Kaíró. AFP

Komið hefur í ljós að efni, sem fornleifafræðingar fundu við forn-egypskt grafhýsi fyrir nokkrum árum, eru einar elstu leifar af osti sem hafa nokkurn tímann fundist.

Fornleifafræðingarnir fundu fyrir nokkrum árum brotin mál í grafhýsi Ptahmes, sem var hátt settur embættismaður í Egyptalandi hinu forna og var uppi á 13. öld fyrir Krist.

Eitt málið hafði að geyma „storknaðan hvítleitan massa“, sem grunur lék á að væri eitthvað matarkyns, en ekki hægt að greina nákvæmlega hvers kyns massinn var á þeim tímapunkti.

Núna þykir ljóst að um ost var að ræða. 3.200 ára gamlan.

Uppgötvunin þykir þýðingarmikil vegna þess að engar fyrri sannanir hafa fundist um að ostur hafi verið framleiddur í Egyptalandi hinu forna samkvæmt grein í tímariti um fornfræðilega efnafræði.

„Efnið sem greint var eru líklega elstu fornfræðilegu leifar af osti sem hafa fundist hingað til,“ segir dr. Enrico Greco sem vann meðal annarra að greiningu ostsins.

Úr kinda- og geitamjólk 

„Við vitum að hann var aðallega gerður úr kinda- og geitamjólk, en það er mjög erfitt að ímynda sér eitthvert ákveðið bragð,“ segir Greco. 

Vísindamennirnir sem greindu ostinn fundu einnig vott af bakteríum sem geta valdið smitsjúkdóminum öldusótt, sem fólk getur veikst af ef það innbyrðir ógerilsneyddar mjólkurvörur.

Á meðal einkenna öldusóttar eru hiti, verkir í vöðvum og sviti. Öldusótt er enn til í dag og ef fundur bakteríanna í ostinum forna verður staðfestur er um að ræða elstu vísbendingar um sjúkdóminn.

Pthames, sem grafhýsið tilheyrði, var borgarstjóri í forn-egypsku borginni Memphis. Grafhýsið, sem er hjá Saqqara-greftrunarsvæðinu nálagt Kaíró, höfuðborg Egyptalands, var fyrst grafið upp árið 1885 samkvæmt BBC. Uppgröfturinn týndist þó vegna rásandi vinda á svæðinu og var enduruppgötvaður árið 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert